131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

591. mál
[19:36]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er komið að seinna frumvarpinu getum við sagt. Eins og hér hefur komið fram er verið að stokka upp eftirlit með markaðnum, annars vegar að færa hluta Samkeppnisstofnunar til Samkeppniseftirlits og annan hlutann, neytendaeftirlit, til Neytendastofu og sameina starf sem heyrt hefur undir Löggildingarstofu þeirri nýju stofnun.

Ég ætla ekki að fella neina dóma um þetta fyrirkomulag. Það kann að hafa ýmsa kosti að fara þessa leið. Þó minni ég á að eitt er að búa til fallega umgjörð og annað að láta verkefni ganga upp. Afrekaskrá Framsóknarflokksins í eftirlitsstarfsemi er nú ekki mjög falleg. Flokkurinn eyðilagði rafmagnseftirlitið fyrir fáeinum árum, braut það algerlega niður samkvæmt nýrri hugmyndafræði sem hljómaði mjög vel (Viðskrh.: Og virkar vel.) í stað þess ... Virkar ekki vel. Það er staðreynd. Könnun sem var gerð á meðal rafverktaka leiddi í ljós að meiri hluti þeirra var andvígur þessu nýja fyrirkomulagi og taldi það ekki hafa verið til góðs. Hugmyndafræðin þá var sú — hljómaði vel — að í stað þess að hafa eftirlit með hverju einustu íbúð og hverju einasta fyrirtæki og stofnun þá ætti að innræta mönnum, verktökum, góð vinnubrögð; kenna þeim vinnubrögð með því að gera úrtakskannanir sem væru undir eftirliti Löggildingarstofu en framkvæmdar af einkaaðilum og hræðslan við þetta úrtakseftirlit átti að hafa þau áhrif á verktakana að þeir vönduðu vel til verka. Síðan kemur á daginn að þetta úrtak er mjög lítið og í mörgum tilvikum hefur þetta leitt til þess að vinnubrögð eru ekki fullnægjandi og sums staðar stafar beinlínis hætta af. Þetta er nú bara staðreynd sem menn hafa oft farið yfir. Menn verða að færa ítarleg og rækileg rök fyrir sínu máli ef þeir ætla að halda hinu gagnstæða fram. Ég hef farið mjög vel í saumana á þessum málum. Vinnubrögðin af hálfu Framsóknarflokksins og af hálfu iðnaðarráðuneytisins voru eiginlega alveg forkastanleg. Það var reyndar forveri núverandi hæstv. ráðherra sem hafði forgöngu um breytingar á þessu sviði. Ég gæti haft um þetta langt mál sem ég ætla þó ekki að gera.

Hvers vegna að rifja þetta upp? Ég rifja þetta upp vegna þess að hér er verið að stofna til nýs embættis sem hljómar líka óskaplega vel: Talsmaður neytenda. Ég geri ráð fyrir að hann sé í fullu starfi. Það kemur ekkert fram um að þetta sé hlutastarf. En það er bara einn maður sem á að sinna þessu veigamikla hlutverki. Ég held að þegar þær hugmyndir voru orðaðar hér fyrr í vetur að setja á fót embætti af þessu tagi, talsmann, umboðsmann eða hvað hann átti að heita, þá höfðu menn í huga eða töldu að þarna ætti að koma á svipuðu fyrirkomulagi og þekkist á Norðurlöndunum, t.d. í Danmörku. Á þingi Neytendasamtakanna núna í haust sagði umboðsmaður neytenda frá starfi umboðsmanns embættisins í Danmörku. Það var mjög fróðlegt. En þetta er ekkert í líkingu við það embætti. Þetta er í rauninni ekkert annað en bara eggjaskurnin og enginn blómi innan í. Það er ekkert þarna.

Ég spyr: Er verið að færa verkefni sem hugsanlega eiga heima hjá Neytendasamtökunum og hafa verið fjársvelt á undanförnum árum inn í stofnun sem síðan mun ekki geta sinnt verkefnum sínum að nokkru marki vegna fjárskorts og þess hve lítið umfang verður í þessari starfsemi? Ég spyr: Eru Neytendasamtökin sátt við þetta nýja fyrirkomulag? Ég spyr. Ég mun leita eftir svari. Ég mun hlusta grannt eftir því sem Neytendasamtökin koma til með að segja þegar þetta mál kemur fyrir efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. (Gripið fram í: Er Jóhannes í ...?) Neytendasamtökin hafa verið fjársvelt á undanförnum árum. Nú spyr ég hvort þetta sé að einhverju leyti sett þeim til höfuðs. Ég gæti alveg skrifað upp á þetta ef hér væri verið að koma á fót raunverulegu talsmanns- eða umboðsmannsembætti í stíl við það sem við þekkjum á Norðurlöndunum. Ég get alveg skrifað upp á það. Þá þyrftum við að kanna það. En það er ekki það sem verið er að búa til. Þetta er bara sýndarveruleiki sem er verið að setja hér á svið. Þetta er ekkert annað. Gott og vel. Við skulum íhuga þetta og hugleiða.

Ég ítreka það sem ég sagði fyrr í dag um fyrra frumvarpið, að það þarf að gefa þessu góðan tíma. Mér finnst allt of skammur tími að ætla að lögleiða þetta núna og láta koma til framkvæmda 1. júlí. Ég held að það eigi að láta þetta liggja í sumar og síðan þá lögfesta á næstu áramótum.

Síðan spyr ég um kröfu um menntun á háskólastigi. Eru þá menn að tala um forngrísku eða er það lífeðlisfræði eða guðfræði sem verið er að krefjast? Þetta er náttúrlega eins og bara hvert annað rugl og algerlega út í hött. Þetta er orðin tíska í frumvörpum og ég hef margoft fundið að þessu, að setja þennan fáránleika (Gripið fram í.) inn í lagafrumvarp. En ég ítreka að ég tel að þetta mál þurfi að fá rækilega umfjöllun. Ég ætla ekki að fella neina dóma um þessar breytingar á skipulaginu fyrr en ég er búinn að kynna mér það betur og heyra rök í málinu. Ég mun hlusta mjög grannt eftir því sem Neytendasamtökin segja í þessu máli og vona að við fáum góðan tíma í þinginu til þess að kanna þetta mál.