131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Urriðastofnar Þingvallavatns.

346. mál
[12:08]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta svar var hreinlega ekki boðlegt. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra hvað væri að frétta af störfum nefndarinnar. En þessi nefnd hefur samkvæmt þessu aldrei verið skipuð. Alþingi mælti fyrir því fyrir sjö árum, eins og hæstv. forsætisráðherra benti á, að skipuð yrði slík nefnd. Í ljós kemur að þessi nefnd hefur aldrei verið sett á laggirnar. Vilji Alþingis hefur með öðrum orðum verið hunsaður af framkvæmdarvaldinu og það hlýtur að vera grafalvarlegt mál.

Að öðru leyti var svar hæstv. forsætisráðherra ekki annað en upplestur á staðreyndum sem ég hef sjálfur hér fyrir framan mig og er t.d. hægt að nálgast á heimasíðu Veiðimálastofnunar og líka á heimasíðu Landsvirkjunar. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið og aðgerðum til að reyna að endurreisa urriðastofninn. En ég þarf ekki að koma upp í ræðustól hins háa Alþingis til að fá þær upplýsingar sem hæstv. forsætisráðherra veitti okkur. Ég er læs og get aflað mér þeirra upplýsinga sjálfur. Ég hef þær allar fyrir framan mig þannig að þetta svar er hreinlega ekki boðlegt.

Það sem mér finnst alvarlegast í þessu máli er að ríkisstjórnin, sem hæstv. forsætisráðherra er í og var m.a. í þegar mælst var til að þessi nefnd yrði skipuð, hefur ekki sinnt hlutverki sínu í þessu máli. Hún hefur ekki skipað þessa nefnd og ég tel að það hafi leitt til þess að dýrmætur tími hafi farið til spillis. Menn hafa látið þessi mál í hendur Landsvirkjunar sem á náttúrlega augljóslega hagsmuna að gæta, m.a. þeirra að reyna að verja virkjun sem sett var upp við útfall Þingvallavatns, Steingrímsstöð. Það er hreinlega ekki boðlegt.

Mig langar því í framhaldi af þessu að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvort hann hafi myndað sér skoðun á því hvort fjarlægja beri þá stíflu eða ekki.