131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Urriðastofnar Þingvallavatns.

346. mál
[12:11]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég hélt að aðalmálið væri að endurreisa urriðastofninn en ég heyri á hv. þingmanni að hann telur aðalmálið að skipa sérstaka nefnd. Það getur vel verið að öllu sé borgið í nefndum. Ég hef ekki trú á því að það bjargist allt á Íslandi með því að skipa sem flestar nefndir (MÞH: Ykkur ber að fara að ályktunum Alþingis.) en hv. þingmaður virðist hafa ofurtrú á nefndum.

Ég tel ljóst að þarna hafi verið staðið mjög vel að málum á undanförnum árum. Það er aðalatriðið. Ef hv. þingmaður þarf ekki að spyrja um þetta þá er það hans að ákveða það. Ég get aðeins greint frá þeim staðreyndum sem liggja fyrir. Ég efast ekki um lestrarkunnáttu hv. þingmanns en hann lagði fram fyrirspurn. Ef það var óþarft að leggja fram fyrirspurnina þá er það hans mál.

Ég sé ekki að það sé tilefni til að skipa slíka nefnd sérstaklega úr því sem komið er. Ég sá ekki um það á sínum tíma í hvaða farveg þetta mál skyldi fara. Það fór í annan farveg. Það hefur mikið verið unnið að endurreisn urriðastofnsins og það finnst mér aðalmálið en ekki einhver nefnd sem hugsanlega hefði mátt skipa. En það liggur ljóst fyrir að mikið starf hefur verið unnið til að endurreisa þennan stofn og ég vænti þess að hv. þingmaður telji það aðalatriðið.