131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Ráðning aðstoðarmanna þingmanna.

466. mál
[12:20]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni Jóni Bjarnasyni fyrir að hreyfa þessu máli hér. Hv. þingmaður gerði ítarlega grein fyrir forsögu málsins og ég get staðfest að það er allt rétt sem þar kom fram um tengsl þessara tillagna við kjördæmabreytinguna og reyndar ýmsar ráðstafanir í byggðamálum einnig sem áttu að fylgja með. Sumt má segja að komist hafi til framkvæmda og annað ekki.

Sú fjárveiting sem nú í nokkur ár hefur verið á lið forsætisráðuneytisins var eingöngu hugsuð sem bráðabirgðaráðstöfun til að hefja fjárveitingar í þessu skyni á meðan menn ynnu úr tillögunum og kæmu sér betur saman um útfærslu þeirra. Þann skilning hef ég a.m.k. alltaf lagt í það mál að menn hafi alls ekki horfið frá því að hrinda í framkvæmd tillögum á þeim grunni sem þarna var lagt upp með og það tel ég að eigi að gera. Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að fylgja eftir yfirlýsingu sinni áðan um að hann hafi vilja til að skoða málið með því að láta nefnd þingmanna eða t.d. formenn þingflokka eða einhverja aðra fara sérstaklega yfir það hvort ekki er hægt að ná góðri samstöðu um að taka næstu skref í uppbyggingu þessa kerfis.