131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Ráðning aðstoðarmanna þingmanna.

466. mál
[12:21]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að fagna yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra um að hann sé reiðubúinn til að fara yfir þetta fyrirkomulag og beita sér fyrir því að formenn flokkanna eða aðrir skoði þetta nánar. Það er augljóst að hér hefur aðeins verið stigið skref í þá átt sem boðuð var við kjördæmabreytinguna. Það hefur ekki verið veitt í þetta nægilegt fjármagn til að það fyrirkomulag geti átt sér stað.

Til viðbótar er rétt að ítreka að það er auðvitað æskilegt þegar fjármunir fara með þessum hætti til stjórnmálaflokkanna að ákveðnar reglur gildi um það bæði hvernig upphæðin er fundin og einnig hvernig þessum fjármunum er ráðstafað.

Ég vil ítreka það sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller að í okkar flokki hefur þetta verið veitt til landsbyggðarkjördæmanna. Ég tel samt sem áður æskilegt að um þetta gildi ákveðnar gegnsæjar reglur þannig að fólk almennt viti hvernig með þessa fjármuni er farið.