131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stöðvun á söluferli Landssímans.

530. mál
[12:36]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum þetta nú daglega, kannski sem betur fer. Hæstv. forsætisráðherra viðurkenndi í gær að hafa ekki lesið minnisblað Samkeppnisstofnunar til einkavæðingarnefndar þegar verið var að undirbúa sölu Símans árið 2000. Það var sagt í gær og talað um að ég ætti ekki að vera að vitna í þetta úrelta plagg. Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Ef plaggið frá Samkeppnisstofnun til einkavæðingarnefndar er úrelt, getur þá verið að ákvörðun um sölu Símans sé jafnúrelt?

Hæstv. forsætisráðherra vitnaði í Evrópska efnahagssvæðið og allt það. Í niðurstöðu skýrslunnar segir m.a., eftir að talað hefur verið um að aðskilja grunnnetið eða skikka þá til að selja breiðbandið, með leyfi forseta:

„Burt séð frá því hvor framangreindra leiða er valin er mjög æskilegt að gerð verði sú krafa að samkeppnisstarfsemi Landssímans sé rekin í sjálfstæðum dótturfélögum.“

Virðulegi forseti. Í Morgunblaðinu í dag er grein þar sem minnst er á samkeppnisaðila Símans, Og Vodafone, (Forseti hringir.) og því haldið fram að Landssíminn beiti samkeppnishindrunum gagnvart hinum litlu fyrirtækjum.