131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stöðvun á söluferli Landssímans.

530. mál
[12:37]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Nýjasta málsvörn hæstv. forsætisráðherra virðist vera að skjóta sér á bak við Evrópusambandið varðandi einkavæðingu Símans. Hingað til hefur hæstv. ráðherra notað sem aðalrök að löngu sé búið að ákveða þetta.

Staðreyndin er auðvitað sú að það er ekkert í evrópskum samkeppnisrétti sem kemur í veg fyrir að til verði stórt fyrirtæki sem bjóði grunnþjónustu á sviði fjarskipta og gagnaflutninga, ekki neitt. Eignarhaldið á því fyrirtæki getur verið hvernig sem er, hjá ríkinu, fjarskiptafyrirtækjunum, blandað eða hvað það nú er.

Eina ævintýramennskan í málinu er einkavæðing Símans. Það er ævintýramennskan og talandi um nauðsyn þess að fá sem mest verð fyrir Símann, halda menn að það verði neytendum til góðs að selja einkaaðila einokunaraðstöðuna? Um það snýst þetta og til þess þarf að hafa grunnnetið með. Auðvitað á hæstv. ríkisstjórn að endurskoða málið. Það eru allar ástæður til þess, áhyggjur manna út af fákeppni eða tvíkeppni, andstaða þjóðarinnar liggur fyrir, 60% eða 70% þjóðarinnar er á móti þessu, reynsla annarra er slæm og það er tvímælalaust óheppilegt við núverandi aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar að auka á þenslu með því að selja Símann.