131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Söluandvirði Steinullarverksmiðjunnar.

595. mál
[12:48]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Við sölu Steinullarverkmiðjunnar var sú ákvörðun tekin, sbr. 1. gr. laga nr. 57/2002, um breytingu á lögum um steinullarverksmiðju, að verja skyldi helmingi söluandvirðisins til samgöngubóta eða annarra verkefna í þeim sveitarfélögum sem áttu verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi verksmiðjunnar.

Söluverð Steinullarverksmiðjunnar nam 210 millj. kr. og var ríkisstjórninni falið að taka ákvörðun um ráðstöfun helmings þeirrar fjárhæðar, 105 millj. kr. Upphaflegar tillögur um meðferð fjárins lutu að því að 70 millj. kr. yrðu nýttar til byggingar Þverárfjallsvegar en við afgreiðslu ríkisstjórnarinnar var ákveðið að nýta fjármuni af vegáætlun til byggingar vegarins. Fékk Vegagerðin 70 millj. kr. fjárveitingu á fjáraukalögum árið 2002 til verksins.

Vinnu við vesturhluta Þverárfjallsvegar er nú lokið og verður nánar greint frá framkvæmdum í skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd vegáætlunar fyrir árið 2004.

Fjárhæðin sem rann til iðnaðarráðuneytisins í fjáraukalögum ársins 2005, 105 millj. kr., var því að öllu leyti nýtt til atvinnuþróunarverkefna. Ég hef áður gert grein fyrir meðferð þess fjár á þskj. 686 á yfirstandandi þingi. Þetta eru staðreyndir málsins og ég geri mér bara ekki alveg grein fyrir því hvað það er sem hv. þingmaður er að fiska eftir eða hvað það er sem hann er að reyna að draga inn í umræðuna vegna þess að í rauninni endaði málið þannig að til þess atvinnusvæðis sem hér um ræðir fóru 105 millj. kr. plús 70 millj. kr. sem fóru í veginn. Þetta er nokkuð rausnarlegt miðað við það sem lagt var upp með.

Hv. þingmaður talar um að eitthvað hafi verið kokkað ofan í sjóðina. Ég minnist þess mjög vel að ég var ekki feimin að tala um að þarna færu 105 millj. til svæðisins og það skiptir verulega miklu máli. Ég er hrædd um að hv. þingmaður sé bara ekki í nógu góðu sambandi við Skagfirðinga ef hann áttar sig ekki á því að þetta var svæðinu til framdráttar.