131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Söluandvirði Steinullarverksmiðjunnar.

595. mál
[12:56]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hafði lúmskt gaman af því þegar hæstv. iðnaðarráðherra kveinkaði sér undan þessari umræðu, kvartaði yfir því að hér væri verið að reyna að fiska eftir einhverju ótilgreindu. Málið er það að við erum í raun og veru að ræða um grafalvarleg prinsippmál, við erum hér að tala um atriði varðandi sölu á ríkiseignum, aðferðafræðina í kringum hana, og hvernig þeim fjármunum er síðan varið sem fást fyrir sölu ríkiseigna.

Þá má á margan hátt segja það, frú forseti, að salan á Steinullarverksmiðjunni hafi verið eins konar prófsteinn á það hvernig ríkisstjórninni tækist að höndla það verkefni að einkavæða ríkisfyrirtæki. Ég verð að segja að þegar maður skoðar ferlið á sölu Steinullarverksmiðjunnar vakna ýmsar spurningar.

Ég ætla alls ekki að gera lítið úr því að 70 millj. hafi síðan réttilega verið veittar í það að byggja upp veginn yfir Þverárfjall, það er að sjálfsögðu hið besta mál. En þarna lágu eftir 105 millj. á sínum tíma. Samkvæmt svari hæstv. ráðherra til mín um daginn fóru 70 af þeim í fiskeldisrannsóknir á vegum Hólaskóla og er það ekki nema hið besta mál. Hins vegar fóru 35 millj. í að loka gjaldþrota fyrirtæki. Það kemur fram í Fréttablaðinu þann 10. febrúar sl. að þarna hafi einhver allsherjarvitleysa verið á ferðinni. Þar er viðtal m.a. við hæstv. ráðherra þar sem hún segir svo, með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðuneytið hafði ekki afskipti af því frekar“ — þ.e. fénu — „en sannleikurinn er sá að við höfum ekki fengið nema fjórtán milljónir af þessum 35 til baka. Nýlega var ákveðið að þeim yrði endurráðstafað til fiskeldisrannsókna í Hólaskóla.“

Þarna virðist hæstv. ráðherra sem sagt bera ábyrgð á því að glutrað var niður tugum milljóna króna í eitthvert ótilgreint verkefni sem enginn getur gert skil á í dag, a.m.k. fær maður ekki séð það. Einhverjum peningum átti að skila. Þeir hafa ekki komið fram enn þá og hér er bara spurning um það hvort ekki sé komið efni í dómsmál.