131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Söluandvirði Steinullarverksmiðjunnar.

595. mál
[12:58]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að segja til um það hvort hér sé efni í dómsmál, hins vegar er það þannig að við höfum tapað fjármunum í atvinnurekstri á Íslandi, og víða dálítið miklum fjármunum. Ég ítreka bara það sem hér hefur komið fram, og hv. þingmaður las upp úr Fréttablaðinu það sem haft er eftir mér, að ég er ekki að fela neitt í þessu máli.

Það var þannig að 35 millj. fóru til þess að bjarga verðmætum, eins og málið var kynnt fyrir mér. Þarna var um að ræða mikið af seiðum í stöðinni og hugmynd manna var sú að ala þau upp í sláturstærð og bjarga þannig verðmætum. Ég hafði síðan ekki meiri afskipti af þessu máli en niðurstaðan er sú að þarna töpuðust fjármunir þó að, guði sé lof, það hafi ekki verið allar 35 millj.

Nýsköpunarsjóður og sjávarútvegsráðuneyti, ef ég man rétt, komu fram með þessa tillögu á þeirri ögurstundu þegar þetta fyrirtæki verður gjaldþrota og mikil verðmæti eru til staðar. Og hvað á ríkið að gera þegar svona staða kemur upp? Vill ekki ríkið bjarga verðmætum? Í þessu tilfelli var það þannig. (Gripið fram í.)

Það er alltaf svo auðvelt að vera gáfaður eftir á, hv. þingmaður, það er ég viss um að hann hefur upplifað í lífinu oftar en einu sinni.

Hvað varðar þessa einkavæðingu held ég að hún hafi að öllu leyti gengið eðlilega fyrir sig. Það hlýtur að vera mikill fengur fyrir Skagfirðinga að hafa fengið þessa fjármuni inn í byggðarlagið og þar að auki veg yfir Þverárfjall sem skiptir miklu máli.

Hv. þm. Jón Bjarnason var náttúrlega alltaf á móti þessari sölu því að hann vill að verksmiðjur á Íslandi séu í ríkiseigu. Hann má alveg hafa þá skoðun en ég er bara ósammála honum um það. Ég tel ekki að verksmiðjur eigi í aðalatriðum að vera í ríkiseigu, (Gripið fram í.) heldur í eigu einstaklinga og þess vegna lagði ég mig fram um að selja þessa verksmiðju.