131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

585. mál
[13:00]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Upptökusvæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri nær frá Hvammstanga að Djúpavogi samkvæmt gamalli reglugerð sem þáverandi heilbrigðisráðherra Eggert G. Þorsteinsson gaf út. Mér telst til að það gætu verið í kringum 45 þúsund manns sem búa á þessu svæði. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er skilgreint sem fyrsta varasjúkrahús landsins með tilliti til almannavarna.

Þeir sem stýra rekstri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eru mjög metnaðarfullir og góðir stjórnendur. Þeir hafa lagt fyrir okkur þingmenn framtíðarsýn sína þar sem efst á óskalistanum til að taka upp nú eru hjartaþræðingar. Samkvæmt lauslegri könnun minni reiknast mér til að hjartaþræðingar á þessu upptökusvæði geti verið í kringum 250 á ári og þar af eru sennilega rúmlega 50 sem eru bráðamál, þ.e. fólk sem flutt er með sjúkraflugvél til Reykjavíkur til að fara í hjartaþræðingu. Ekki er mér kunnugt um hve margar hjartaþræðingar eru þar á ári en heyrt hef ég þó töluna 2.000 þó að ég viti ekki nákvæmlega hvort hún er rétt.

Nútímalæknisfræði krefst þess að sjúklingar sem fá hjartaáföll eða kransæðastíflu komi sem allra fyrst í þræðingu, innan nokkurra tíma, áður en drep kemst í vöðvann. Það er auðvitað þetta m.a. sem er rökstuðningur stjórnenda Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri fyrir því að fá að taka upp hjartaþræðingar.

Það má geta þess að þeir Norðlendingar og Austfirðingar sem búa á upptökusvæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þurfa að leggja í mikinn ferðakostnað, allt að 20 þús. kr. á mann, og auðvitað fer aldrei einn maður í hjartaþræðingu, það fer yfirleitt fylgdarmaður með. Auk þess er vinnutap og annað slíkt þannig að heilsuhagfræðilegan kostnað sem fer í þetta má reikna allt að 100 þús. á hvern sjúkling fyrir utan að það eykur auðvitað álagið á Landspítalanum að flytja þurfi allt þetta fólk til Reykjavíkur í hjartaþræðingu.

Ekki alls fyrir löngu var tekið í notkun segulómtæki við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, í nóvember sl., sem var góður áfangi og ber að þakka fyrir jafnt hæstv. heilbrigðisráðherra sem öðrum. Það má segja að sú ákvörðun sé mjög þjóðhagslega hagkvæm vegna þess að það má auðveldlega reikna töluverðan sparnað sem í því felst.

Virðulegi forseti. Hjartaþræðingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eru tilefni fyrirspurnar minnar nú til hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og hún hljóðar svo:

1. Eru áform um að hefja hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri?

2. Hver er stofnkostnaður við slíka starfsemi?

3. Hver yrði árlegur rekstrarkostnaður slíkrar starfsemi á FSA?

4. Hversu margir sjúklingar á starfssvæði FSA hafa þarfnast hjartaþræðingar undanfarin fimm ár?