131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

585. mál
[13:03]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller hefur beint til mín nokkrum spurningum um hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, m.a. um hugsanleg áform um að hefja slíkar þræðingar þar, hver yrði stofnkostnaður og árlegur rekstrarkostnaður sem og um fjölda sjúklinga sem þarfnast hafa slíkrar aðgerðar undanfarin fimm ár.

Um nokkurt skeið hafa átt sér stað lauslegar umræður um þann möguleika að taka upp hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hjartaþræðingar og kransæðavíkkanir hafa orðið æ algengari aðgerðir og hafa að hluta til leyst af hólmi þær kransæðaaðgerðir sem áður voru framkvæmdar. Engu að síður er hér um mjög vandasamar aðgerðir að ræða sem krefjast mikillar þjálfunar og færni allra sem að slíkum verkum koma. Samkvæmt upplýsingum frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er talið að stofnkostnaður gæti numið 125–130 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður gæti numið um 30 millj. kr.

Hv. fyrirspyrjandi spyr einnig um fjölda sjúklinga á starfssvæði FSA sem þarfnast hafa hjartaþræðinga undanfarin ár. Má í því sambandi geta þess að lausleg könnun á vegum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sýndi að árið 2002 voru 53 sjúklingar sendir frá Norðvesturlandi, 138 frá Akureyri og Norðausturlandi og 78 sjúklingar frá Austurlandi. Alls voru þetta um 237 sjúklingar frá Norður- og Austurlandi það ár.

Af hálfu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eru áform um að gera nákvæma heilsuhagfræðilega úttekt á möguleikum þess að taka upp hjartaþræðingar á sjúkrahúsinu með öllum þeim ráðstöfunum og varúðarráðstöfunum sem gera þarf í slíku tilviki og mun ráðuneytið fylgjast vel með þeirri vinnu og taka þátt í henni eftir atvikum. Hins vegar vil ég taka fram í tilefni af orðum hv. fyrirspyrjanda að efst á forgangslistanum hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er að efla meðferð krabbameinssjúklinga. Við höfum tekið undir það markmið og viljum vinna að því sem forgangsmáli varðandi sjúkrahúsið auk þess að klára innréttingu sjúkrahússins sem ég vona að við getum haldið áfram með og klárað.

Ég vona að þessi svör upplýsi þingmanninn um stöðu þessa máls.