131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

585. mál
[13:09]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans og sömuleiðis hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir þátttöku hans þó að ég geti ekki þakkað fleirum að þessu sinni. Ég held að það hafi sýnt sig nú þegar með segulómtækið, sem tók forustumenn Sjúkrahússins á Akureyri fimm ár að koma í gegn og er loksins komið eins og ég hef áður sagt, að læknar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri eru fullfærir að sjá um þær aðgerðir og þjálfa sig upp til þess eins og annarra læknisverka. Það sýnir sig nú þegar að þörfin fyrir það tæki var mjög mikil og að það er töluvert mikill þjóðhagslegur sparnaður, sem er náttúrlega aðalatriðið, við að gera þetta fyrir norðan í stað þess að fólk komi hingað suður, missi vinnu o.s.frv. eins og við reiknum þetta út.

Ég hygg, virðulegi forseti, að slíkar niðurstöður mundu koma út ef farið væri vel í gegnum hjartaþræðingar og ég tala ekki um til að minnka álagið á Landspítalann af höfuðborgarsvæðinu og hann gæti þá kannski sinnt öðrum brýnni verkefnum í staðinn.

Þetta vil ég taka skýrt fram, virðulegi forseti, og jafnframt hvet ég hæstv. ráðherra til að láta þessa skoðun fara fram vegna þess að það hefur sýnt sig eins og ég hef áður sagt að bæði læknar og starfsfólk allt á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er mjög metnaðarfullt og þar eru góðir stjórnendur. Dæmið sem ég tók um segulómtækið sýnir að það var full þörf á því tæki og þeirri þjónustu og ég hygg að það verði svipað með hjartaþræðingarnar þó að ekki séu allir sammála um það.