131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Akstur undir áhrifum fíkniefna.

598. mál
[13:13]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í umferðarlögum er kveðið mjög ákveðið á um það í 44. gr. að enginn megi „stjórna eða reyna að stjórna ökutæki, ef hann vegna veikinda, hrörnunar, ofreynslu, svefnleysis, neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða annarra orsaka er þannig á sig kominn, að hann er ekki fær um að stjórna ökutækinu örugglega“. Síðar í þeim sömu lögum, í 45. gr., er farið nákvæmlega yfir það hvernig eigi meta það að ökumaður sé undir áhrifum áfengis og það er útlistað nákvæmlega og hvernig það skuli reynt og hvernig það skuli mælt. Það eru ákveðin viðurlög og ef menn brjóta af sér og aka undir áhrifum áfengis missa menn ökuskírteini tímabundið eða ævilangt ef brotið er mjög alvarlegt.

Hið sama er ekki upp á teningnum þegar fíkniefni eru annars vegar og þar virðist manni vera pottur brotinn. Ég hef vitneskju um mjög alvarleg dæmi um afleitt ástand í þeim efnum og virðast menn ekki geta brugðist við á sama hátt við akstri undir áhrifum fíkniefna. Ég get nefnt dæmi um að lögreglan hefur stöðvað ökumann, í þessu tilviki ungmenni, vegna óeðlilegs aksturslags, hún sér að ökumaðurinn er í annarlegu ástandi og þegar í ljós kemur að hann er ekki undir áhrifum áfengis er ökumaðurinn keyrður heim. Það er ekkert gert og hann heldur ökuskírteini sínu. Svo endurtekur þetta sig og lögreglan virðist ekki hafa nein úrræði. Hún tekur þennan útúrdópaða ökumann jafnvel upp á lögreglustöð, kallar til lækni og það er undir lækninum komið hvort hann gerir eitthvað í málinu. Stundum er tekin blóðprufa eða þá að læknir er kallaður til til að horfa í augun á ökumanninum, mæling sem ég skil ekki alveg, og síðan gerist ekki neitt í framhaldinu.

Ég verð að segja að það er verulegt áhyggjuefni þegar maður heyrir af slíkum hlutum, að það skuli jafnvel vera útúrdópaðir ökumenn úti í umferðinni og að ekki sé hægt að taka á því á nokkurn hátt. Þess vegna langaði mig til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra eftirfarandi spurninga sem eru á fyrirspurnablaðinu og hvað lögreglan væri að gera í þessum málum:

1. Hversu oft stöðvaði lögregla ökumenn undir áhrifum fíkniefna á síðasta ári?

2. Hvernig er kannað hvort ökumaður er undir áhrifum fíkniefna ef hann er stöðvaður vegna óeðlilegs aksturslags og ekki er um ölvun að ræða? Hversu oft var það kannað á síðasta ári?

3. Hvernig bregst lögreglan við þegar ökumaður undir áhrifum fíkniefna veldur slysi eða öðru tjóni?

4. Hversu margir voru sviptir ökuréttindum vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna á síðasta ári?

Það væri fróðlegt að fá svör við þessu hjá hæstv. dómsmálaráðherra.