131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Akstur undir áhrifum fíkniefna.

598. mál
[13:20]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þessi svör. Eins og kom fram hjá honum eru ekki fyrir hendi sömu möguleikar til að kanna ástand ökumanna. Hann telur í svari sínu að blóð- og þvagsýni séu að jafnaði tekin en ég þekki dæmi um að það hafi ekki verið gert. Ungmenni hefur verið sent heim og það haft áfram ökuskírteini þó að það hafi lent í vandræðum vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann að gera þurfi lagabreytingar til að bæta þetta ástand og setja ákveðin viðurlög varðandi þennan akstur? Þeir sem hafa haft samband við mig út af þessu segja að svör lögreglunnar séu þau að hún hafi ekki úrræði og það sé svo dýrt að senda viðkomandi alltaf í blóðprufu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann að það hindri að einhverju leyti rannsókn á þessum málum og það að ökumennirnir séu sviptir ökuréttindum í einhvern tíma að þarna séu dýr úrræði á ferðinni?

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji 88 brot á síðasta ári vera eðlilegan fjölda. Telur hann kannski að fleiri séu á ferðinni þar sem ekki er tekið á málunum, þ.e. akandi undir áhrifum fíkniefna sem eru teknir en ekki sendir í blóðprufu, kærðir eða tekið á? Hversu há heldur hann að þessi tala sé í rauninni?