131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Kostnaður við breikkun Suðurlandsvegar.

574. mál
[15:05]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í nýlegum tölum frá Vegagerðinni að aukning umferðar um Suðurlandsveg hefur verið mikil á undanförnum árum, heil 70% á rúmum áratug og í kringum 10% milli áranna 2002 og 2003. Vegurinn kallar því á úrbætur og til framtíðar litið er besta niðurstaðan að breikka veginn frá Rauðavatni til Selfoss, t.d. með þriggja akreina vegi, tveir plús einn eins og það er kallað og þekkt er í Svíþjóð, sem er álitinn hagkvæmur og góður kostur í vegagerð almennt.

Til að nefna fleiri töluleg dæmi um hve brýnar þessar framkvæmdir eru hefur meðalumferð um Hellisheiði á dag á síðustu 12 árum aukist um 70%. Árið 1992 var meðalumferðin á dag, heilsárstala með öllum toppum sínum og lægðum, rúmlega 3.200 bílar. Árið 2004 er fjöldi þeirra bíla sem fara yfir Hellisheiði hins vegar tæplega 5.640 bílar, aukningin um 70%. Í fyrra, milli áranna 2003 og 2004, var aukningin á þessari leið tæp 8% og tæp 12% á leiðinni milli Hveragerðis og Selfoss undir Ingólfsfjalli. Aukin umferð á svæðinu helst að sjálfsögðu í hendur við þá miklu íbúasprengingu sem hefur orðið þar, mikinn fjölda sumarhúsa og fleiri eigenda heilsárshúsa af höfuðborgarsvæðinu á Suðurlandsundirlendinu á síðustu árum auk þess sem ferðamönnum sem þangað sækja fjölgar á hverju ári.

Það er mikil samstaða um þetta mál meðal sunnlenskra stjórnmálamanna, þingmanna og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem hafa sett þetta mál efst á forgangslista sinn, þ.e. að vinna að þessum úrbótum og byggja þriggja akreina veg á þessari leið.

Tel ég forvitnilegt að fá það fram hjá hæstv. ráðherra hvaða kostnaður gæti hugsanlega legið að baki þessum framkvæmdum og spyr hann:

1. Hver er áætlaður kostnaður:

a. við að tvöfalda Suðurlandsveg frá Rauðavatni að Selfossi,

b. við að leggja þríbreiðan veg frá Rauðavatni að Selfossi,

c. við að lýsa Suðurlandsveg frá Rauðavatni að Selfossi?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að breikkun og lýsing Suðurlandsvegar verði tekin upp í samgönguáætlun?