131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Kostnaður við breikkun Suðurlandsvegar.

574. mál
[15:08]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er spurt: „Hver er áætlaður kostnaður við að tvöfalda Suðurlandsveg frá Rauðavatni að Selfossi?

Svar mitt er þetta: Leiðin frá Rauðavatni að Selfossi er um 45 km löng. Miðað við reynslutölur Vegagerðarinnar frá Reykjanesbraut má áætla að kostnaðurinn við hvern kílómetra við tvöföldun sé a.m.k. 100 millj. kr. Heildarkostnaður yrði því um 4,5–5 milljarðar kr.

Ef farið verður í að tvöfalda veginn væri eðlilegt að gera þá kröfu að öll vegamót verði mislæg eins og á Reykjanesbrautinni. Einnig þyrfti þá að fækka vegamótum miðað við það sem nú er, sem mundi þá kalla á gerð einhverra hliðarvega. Gert er ráð fyrir að mislæg krossgatnamót kosti um 200–300 millj. kr. en mislæg T-gatnamót um 150–200 milljónir. Á leiðinni frá Rauðavatni að Hveragerði virðist í fljótu bragði þurfa að gera a.m.k. fimm mislæg T-gatnamót um 150–200 milljónir. Á leiðinni frá Rauðavatni að Hveragerði virðist í fljótu bragði þurfa að gera a.m.k. fimm mislæg T-gatnamót sem gætu kostað 750–1.000 millj. kr. Frá Hveragerði að Selfossi þyrftu sennilega að vera þrenn mislæg gatnamót og tvenn mislæg T-gatnamót sem gætu kostað 900–1.300 millj. kr. Samtals má því áætla að kostnaður við Suðurlandsveg frá Rauðavatni að Selfossi gæti orðið á bilinu 6–7 milljarðar kr.

Þá er spurt um kostnað við að leggja þríbreiðan veg frá Rauðavatni að Selfossi.

Svarið er svohljóðandi: Í áætlunum Vegagerðarinnar hefur verið gert ráð fyrir að tvöfalda þyrfti veginn frá Rauðavatni að Hafravatnsafleggjara en svokallaður tveir plús einn vegur mundi duga austan við Hafravatnsveg. Ekki væri þó óeðlilegt að gera ráð fyrir tvöföldun á veginum milli Hveragerðis og Selfoss í framtíðinni. Frá Rauðavatni að Hafravatnsvegi eru 3,4 km. Kostnaður við tvo plús tvo veg þar gæti verið um 400 millj. kr. Frá Hafravatnsvegi að Selfossi eru um 22 km, sem ekki eru með þremur akreinum nú þegar. Kostnaður við að breikka veginn um eina akrein hefur verið áætlaður um 750 millj. kr. og er þá ekki gert ráð fyrir miðjuvegriði en það er talið auka öryggi vegarins verulega. Talið er að kostnaður við miðjuvegrið sé um 10 millj. kr. á kílómetra eða um 400 millj. kr. alla leiðina. Þessu til viðbótar koma breytingar á ræsum og brúm sem gætu kostað um 200 millj. kr. Einnig þyrfti að gera ráð fyrir lagfæringum á þeim hluta vegarins sem í dag er þrjár akreinar, sem eru um 17 km. Fækka þyrfti vegamótum og lagfæra á leiðinni, annaðhvort með stefnugreiningu eða hringtorgum. Samtals gæti þurft að leggja 6–7 stefnugreind gatnamót og þrjú hringtorg. Kostnaðurinn við það gæti verið 250–300 millj. kr. Samtals gætu þær vegabætur því kostað um 2 milljarða kr.

Benda má á að á heimasíðu Vegagerðarinnar er að finna nýlega skýrslu um samanburð á arðsemi 2+1 og 2+2 vega, annars vegar milli Reykjavíkur og Selfoss og hins vegar milli Reykjavíkur og Borgarness.

Í c-lið spurningarinnar um kostnaðinn er spurt hvað kosti að lýsa Suðurlandsveg frá Rauðavatni að Selfossi?

Svar mitt er þetta: Eins og kom fram í fyrirspurn um sama efni, samanber þskj. 723, mál 471, var á árinu 2001 áætlaður kostnaður við veglýsingu meðfram hringveginum milli Breiðholtsbrautar og Hveragerðis um 360 millj. kr. á verðlagi desember 2001. Út frá því má álykta að kostnaður við að lýsa einnig upp veginn milli Hveragerðis og Selfoss sé um 100 millj. til viðbótar. Árlegur rekstrarkostnaður við lýsingu frá Rauðavatni að Selfossi gæti verið um 20 millj. kr. á ári.

Þá spyr hv. þingmaður: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að breikkun og lýsing Suðurlandsvegar verði tekin upp í samgönguáætlun?

Svar mitt er þetta: Endurskoðun samgönguáætlunar er nú að mestu lokið. Mjög mörg verkefni bíða úrlausnar á sviði vegamála sem flest eru aðkallandi, ýmist út frá öryggissjónarmiðum, hagkvæmni, greiðari samgöngum eða umhverfissjónarmiðum. Við að ákveða í hvaða verkefni verður farið við næstu endurskoðun samgönguáætlunar verður tekið mið af öllum þessum sjónarmiðum en að sjálfsögðu er mikill vilji til þess að bæta úr. Við stöndum í miklum framkvæmdum og vegabótum vítt og breitt um landið. Vandi okkar er sá að velja og hafna og ráðast í þær framkvæmdir sem eru mikilvægar.

Í þessu sambandi minni ég á að við gerum ráð fyrir því að létta á umferð um Hellisheiði með uppbyggingu Suðurstrandarvegar og með uppbyggingu vegar um Gjábakka. Það dregur væntanlega úr umferðarþunga á Hellisheiðinni. Þannig er unnið að mörgum mikilvægum úrbótum á þessu svæði og nauðsynlegt að minna á það hér. En mér er jafnframt ljóst að við þurfum að tryggja sem best uppbyggingu vegarins yfir Hellisheiði í þágu umferðaröryggis.