131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Kostnaður við breikkun Suðurlandsvegar.

574. mál
[15:16]

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa tímabæru fyrirspurn. Ég vildi bara vekja athygli á því þar sem ég á mjög oft leið þarna um að á brautinni eru ákveðnir slysakaflar. Ef þetta verður ekki tekið inn á samgönguáætlun er afar brýnt að taka kaflann við Lækjarbotna, kaflann við Litlu kaffistofuna, Kambana og Skíðaskálabrekkurnar sem eru mjög sviptivindasamar og alvarlegar. Þar verða alvarlegu slysin. Fari þetta ekki inn á vegáætlun hygg ég að taka eigi þessa kafla sérstaklega í gegn og tvöfalda þá eða þrefalda og setja vegrið á milli akreina. Ég hef ekki tölur í höndunum en ég hef reynslu af að fara þarna, bæði að vetrarlagi og sumri, mörgum sinnum á ári og ég veit af þessum hættum sem þarna eru verulegar.

Ég vek athygli á því líka að sumarbústaðaeigendur fyrir austan fjall eru farnir að fara miklu meira að vetrarlagi í bústaði sína. Koma þar til hitaveituframkvæmdir o.fl.