131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Kostnaður við breikkun Suðurlandsvegar.

574. mál
[15:20]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það fer auðvitað ekki á milli mála að þingmenn hafa mikinn áhuga á úrbótum í samgöngumálum og það er af hinu góða. Samgönguráðherra gleðst yfir því að eiga svo marga bandamenn.

Mér fannst hv. þingmenn tala eins og ekkert væri verið að gera, ekkert stæði til. Hv. þm. Kjartan Ólafsson vakti athygli á því að vinnuvélar eru á þessu svæði og að nýbúið er að bjóða út verkið frá Litlu kaffistofunni og upp í Skíðaskálabrekku þannig að það verður náttúrlega geysileg bragarbót og mikil viðbót. Mér fannst bæði fyrirspyrjandi og hv. þingmenn aðrir tala eins og ekkert stæði til og það þyrfti að berja samgönguráðherrann til að koma einhverju inn á vegáætlun. Ég bið þingmenn um að gleyma ekki því sem þeir hafa þegar samþykkt að gera.

Auðvitað hljóta menn að velta fyrir sér forgangsröðun í samgöngumálum. Ég hef beint fyrir framan mig hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sem leggur til að a.m.k. 15 jarðgöng verði grafin á næstunni, jafnvel 20, og þá sjá menn að af mörgu er að taka. Þess vegna verðum við að velja og hafna. Bent hefur verið á að þingmenn Suðurkjördæmis lögðu ofurkapp á Suðurstrandarveginn. Þá lá það fyrir að gera þyrfti úrbætur á Hellisheiðinni. Ég man ekki eftir því að á þeim tíma sem Suðurstrandarvegurinn var í umræðunni hafi þær hörðu kröfur verið uppi af hálfu þingmanna Suðurkjördæmis að meiri ástæða væri til þess kannski að fara í veginn um Hellisheiði á undan því að endurbyggja Suðurstrandarveginn. Við erum (Forseti hringir.) í óskaplega þröngri stöðu. Hv. þingmenn, (Forseti hringir.) m.a. hv. þingmenn Suðurkjördæmis, verða að muna eftir þessu.