131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stúlkur og raungreinar.

371. mál
[15:23]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Það er staðreynd að í framhaldsskólum landsins stunda miklu færri nemendur nám á raungreinasviði en á öðrum sviðum og í hópi nemenda á raungreinasviði eru stúlkur mun færri en piltar. Það þarf að hvetja til fjölgunar almennt í raungreinanámi á framhaldsskólastigi, ekki síst í ljósi aukinnar áherslu á tæknifræði- og verkfræðinám á háskólastigi, og mín skoðun er að hvetja þurfi stúlkur sérstaklega. Reynsla hefur fengist af slíkum hvatningarverkefnum og má nefna sem dæmi að stúlkum fjölgaði í verkfræði við Háskóla Íslands eftir að sérstakt átak var gert í því fyrir nokkrum árum að kynna verkfræði og möguleika hennar í framhaldsskólum landsins. Átakið fólst m.a. í því að kvenkyns nemendur í verkfræði fóru í framhaldsskólann og kynntu verkfræðina sem starfsgrein.

Fyrir skemmstu átti ég orðastað við hæstv. menntamálaráðherra um aðlögun framhaldsskólans að aukinni áherslu á verkfræði- og tæknifræðimenntun á háskólastigi. Þá taldi hæstv. ráðherra, og vitnaði í tölur um fjölda nemenda á náttúrufræðibrautum, að nægur fjöldi nemenda stundaði raungreinanám á framhaldsskólastigi og að ekki þyrfti sérstaklega að leggja áherslu á að efla þær þótt aukin áhersla væri á háskólanám í verkfræði og tæknifræði. Ég benti á að það sem áður hét eðlisfræðideild væri í raun nauðsynlegur undirbúningur fyrir verkfræðinema en þar var krafist talsvert meiri stærðfræði- og eðlisfræðikunnáttu en á náttúrufræðibraut. Eðlisfræðibraut var talin erfiðasta brautin til stúdentsprófs og nemendur þar alla jafna fáir. Nú er búið að breyta um nafn á brautum í framhaldsskóla og breyta valfyrirkomulagi en ég tel þá staðreynd óbreytta að fáir velji sér þyngstu stærðfræði- og eðlisfræðiáfangana og að sérstaks átaks og hvatningar sé þörf í framhaldsskólum til að það breytist. Til að styðja þessa skoðun mína frekar ætla ég að vitna í umsögn Sigurðar Brynjólfssonar, deildarforseta verkfræðideildar Háskóla Íslands, sem hann veitti í tilefni fyrirhugaðrar sameiningar Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Sigurður Brynjólfsson segir, með leyfi forseta:

„Nemendur með stúdentspróf og hafa fullnægjandi undirbúning í stærðfræði og raunvísindum eru ekki nægjanlega margir til að standa undir verkfræðinámi í tveimur skólum á Íslandi.“

Virðulegi forseti. Ég tel engan vafa á því að efna þurfi til sérstakrar hvatningar í framhaldsskólum landsins ef það markmið á að takast að fjölga verkfræði- og tæknifræðimenntuðu fólki á Íslandi. Sú hvatning ætti að mínum dómi ekki síst að beinast að stúlkum. Dæmin sanna að hægt er að ná árangri með því móti. Ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra:

Telur ráðherra ástæðu til að hvetja stúlkur markvisst til náms í raungreinum á framhaldsskólastigi?