131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Háskóli á Ísafirði.

522. mál
[15:51]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skyldi taka þann kost að skapa sjálfseignarstofnun utan um þekkingarfyrirtækið sem hún hyggst setja á fót vestur á fjörðum. Það er ánægjuefni að ráðherranum skuli þykja það rekstrarform hentugt til að reka þekkingarstarfsemi af þessu tagi. Við höfum nýlega fengið að heyra nokkuð aðra sögu af því rekstrarformi, sjálfseignarstofnunum, varðandi starfsemi á háskólastigi.

Til að meta hugmyndir ráðherra vildi ég gjarnan að hún upplýsti hve myndarlega hún hyggst standa að þessu? Hversu mikið fé á að setja vestur til að gera þetta? Hve mörg stöðugildi á að setja í þessa nýju stofnun? Hvaða umfang á að vera á þessu? Maður þarf að geta áttað sig á því hvaða hugur fylgi hér máli. Þá tel ég mikilvægt að nefndar verði upphæðir og fjöldi nýrra starfa vestur á fjörðum, sem sannarlega hljóta að skipta máli, samanber ræðu hv. fyrirspyrjanda.