131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Samningur um menningarmál.

541. mál
[16:06]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svar hennar og vafalaust góðan hug til þessa verkefnis eins og fram hefur komið, þó svo að mér finnist samt sem áður þetta taka allt of langan tíma. Ég held að ekki sé nú eingöngu um óþolinmæði að ræða því að í ágúst verða liðin þrjú ár eða 36 mánuðir frá því að Tómas Ingi Olrich, þáverandi menntamálaráðherra, gaf undir fótinn og vakti mikla bjartsýni hjá þeim sem hlustuðu á fundi Eyþings um menningarsamning.

Það var kannski því miður of mikið litað af þeim tíma sem fór í hönd. En ég vil trúa því að núverandi hæstv. menntamálaráðherra taki þetta kefli og framkvæmi þetta sem fyrst, að fulltrúar frá Eyþingi fái viðtal og komi til fundar í ráðuneytið til að halda áfram að reyna að koma þessum samningi í höfn.

Ég held að ekkert vanti frá Eyþingi, búið er að vinna heimavinnuna mjög vel og þeim sem vinna góða heimavinnu á að gefa góða einkunn, jafnvel í samræmdu prófi, og ég hvet til þess að það verði gert. Það liggur náttúrlega í augum uppi, virðulegi forseti, eins og hæstv. ráðherra sagði, að þetta er háð fjárveitingavaldi Alþingis. Í gögnum Eyþings er m.a. fjallað svolítið um peningahliðina og um öll þau framlög frá menntamálaráðuneyti sem fara í ýmsar stofnanir menningarmála á höfuðborgarsvæðinu og eru það stórar og miklar tölur meðan maður sér litlar tölur úti á landsbyggðinni.

Það vekur líka athygli mína, virðulegi forseti, að þegar þessum tölum er skipt niður á gjöld á hvern íbúa sýnist mér höfuðborgarsveitarfélögin komast af með mjög lága tölu til menningarmála eða 5.300 kr. í Garðabæ (Forseti hringir.) miðað við árið 2002 meðan ég sé vini mína á Seyðisfirði með tæpar 17.000 kr.