131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins.

[10:35]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ráðning í stöðu fréttastjóra útvarpsins í gær er skýrt dæmi um hið spillta valdaumhverfi sem skapast með íslensku fjórflokkaskipaninni. Þar leitast tveir stjórnmálaflokkar alltaf við að ná saman í stjórnarsamstarfi og deila síðan og drottna í krafti meiri hluta. Þá kemur upp hin svokallaða helmingaskiptaregla þar sem ýmsum gæðum og bitlingum sem í raun tilheyra þjóðinni er skipt á milli gæðinga þeirra stjórnmálaafla sem deila með sér völdum. Þetta býður síðan upp á misbeitingu valds og ýmiss konar spillingu sem eykst í réttu hlutfalli við lengd valdasetu viðkomandi stjórnmálaafla.

Við í Frjálslynda flokknum viljum brjóta upp þetta fjórflokkakerfi til að lýðræðið verði virkara, að hér komi til sögunnar fleiri stjórnmálaöfl þannig að dragi úr hættu á að klíkuskapur, valdagræðgi og spilling ráði för, þvert á hagsmuni heildarinnar sem er þjóðin öll.

Það er búið að vera átakanlegt að horfa upp á hvernig Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa sýnt Ríkisútvarpinu okkar tómlæti í valdatíð sinni sem hefur nú spannað á fimmtánda ár, látið það drabbast niður með lélegum rekstri og dregið lappirnar með að marka því skýra stefnu til framtíðar. Nú þegar loksins sást vonarglæta með væntanlegu frumvarpi menntamálaráðherra, frumvarpi sem virðist geyma margar góðar tillögur um breytta og bætta skipan, gerir meiri hlutinn í útvarpsráði þetta. Gengið er fram hjá fjölmörgum af virtustu frétta- og útvarpsmönnum þjóðarinnar þegar ráða á í stöðu fréttastjóra einnar mikilvægustu fréttastofu landsins. Fréttstofurnar eru niðurlægðar og látið í veðri vaka að hér hafi ekki verið leitað eftir fréttastjóra sem slíkum, heldur eins konar yfirmanni fyrir reksturinn.

Þetta er fásinna. Ég hef sjálfur starfað á fréttastofu útvarpsins og veit um hvað þetta starf snýst. Þetta er lykilstaða á fréttastofunni og það er mikilvægt að í þessa stöðu veljist fólk sem þjóðin treystir, ekki einhver maður úti í bæ sem Framsóknarflokkurinn treystir.