131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins.

[10:47]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það vekur athygli að aðeins einn stjórnarliði hefur talað hérna, Birgir Ármannsson, hv. þingmaður, um þingtæknileg efni. (Gripið fram í: Hvar er Framsókn?) Það er alveg rétt hér er enginn framsóknarmaður og hæstv. utanríkisráðherra er genginn úr salnum, formaður Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg rétt hjá Birgi Ármannssyni að það er harmsefni að menntamálaráðherra skuli ekki vera hér. Hæstv. menntamálaráðherra ber ábyrgð á útvarpsstjóranum. Við hér á Alþingi berum hins vegar ábyrgð á útvarpsráði. Stjórnarþingmennirnir á Alþingi bera ábyrgð á stjórnarmeirihlutanum í útvarpsráði.

Það er að vísu rökrétt að ekki skuli vera hér stjórnarliðar og að Davíð Oddsson, hæstv. utanríkisráðherra, skuli ekki einu sinni hafa séð sér fært að vera við umræðuna fyrr en í lok hennar og í byrjun hennar. Það er einskis að vænta af ráðherrum, þingmönnum og spunameisturum stjórnarflokkanna í þessu máli og öðrum. Þeir svífast einskis, þeir hafa sýnt það, og þess vegna bið ég úr þessum ræðustól útvarpsstjórann að hugsa. Markús Örn, hugsaðu, taktu ábyrgð.