131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Breyting á II. viðauka við EES-samninginn.

604. mál
[10:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú í upphafi þingfundar eru hér nokkrar tillögur til þingsályktunar á dagskrá sem varða reglugerðir, staðla og tilskipanir Evrópusambandsins. Sú sem fyrst er tekin á dagskrá, um starfsemi sem felst í söfnun blóðs og að hún þurfi leyfi eða viðurkenningu yfirvalda, er eflaust afar mikilvæg gerð eða regla sem nauðsynlegt er að setja lög um. Hins vegar er það efnislega ekki þessi tillaga til þingsályktunar sem ég kveð mér hljóðs til að fjalla um, heldur til að ræða hversu erfitt er að taka til umræðu þessar tillögur til þingsályktunar um ákvarðanir EES-nefndarinnar og hversu veik vinnan hjá okkur á Alþingi Íslendinga almennt er varðandi þessar gerðir.

Þessar tillögur detta eiginlega í fangið á okkur alþingismönnum meira og minna óundirbúið. Það er erfitt að skilja tillögurnar þegar maður les þær og reynir að átta sig á hvað felist pólitískt eða efnislega í því að setja lög samkvæmt viðkomandi tilskipun eða gerð.

Ég átti þess kost fyrir rúmu ári að sitja fund í Helsingfors með fulltrúum þingmanna allra þjóðþinganna þar sem fjallað var um með hvaða hætti tilskipanir og reglur Evrópusambandsins væru settar í lög og samþættaðar í vinnu þingsins. Það var afar áhugavert að kynnast því og fjalla um með hvaða hætti unnið er að þessum málum. Það var auðvitað áþreifanlega óþægilegt að uppgötva að aðkoma þinga Noregs og Íslands var allra minnst að vinnunni við þessar tilskipanir og gerðir.

Besta og faglegasta vinnan átti sér stað í finnska þinginu. Þar hafa menn ákveðið að hafa mjög mikla samþættingu í vinnu þingsins og viðkomandi ráðuneyta, og þá ekki síst utanríkisráðuneytisins, á vinnslutíma þessara gerða, enda er Finnland aðili að Evrópusambandinu og hefur tekið það mjög alvarlega að vera þátttakandi í tilskipunum og gerð þeirra.

Þar var ákveðið að þeirra svokallaða „grand committee“ sæi um þetta verkefni og væri í raun sú nefnd sem bæri ábyrgð á vinnu þingsins. Það er sú nefnd þingsins sem varð til við að vinna stjórnarskrá Finna á sínum tíma og hefur eiginlega flokkun sem mesta og æðsta nefnd þingsins. Hún heldur utan um vinnuna og deilir henni jafnframt til viðkomandi fagnefnda. Það var að heyra að það væru 2–3 umferðir í nefndavinnu sem færu fram á hinum langa vinnslutíma við gerð tilskipana og gerða hjá Evrópusambandinu. Það var ekki laust við að maður væri svolítið öfundsjúkur að heyra hvað þeim hafði tekist að taka upp góð og öflug vinnubrögð um að þingið kæmi að einhverju leyti að vinnunni.

Auðvitað eigum við ekki kost á þessu. Við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu og við gerum okkur alveg grein fyrir því að íslenskir embættismenn eiga undir högg að sækja með þátttöku í þeim nefndum hjá Evrópusambandinu sem eru á vinnslutíma að vinna að tilskipunum, gerðum og reglum.

Hins vegar getum við reynt að skoða hvað væri best að gera hér í þinginu varðandi vinnslu á þessum málum. Þá blasir við að hér gerist það ýmist að þingsályktun um ákvörðun EES-nefndarinnar kemur inn á undan frumvarpi og á meðan verið er að vinna frumvarp til lagasetningar í viðkomandi ráðuneyti. Þó hefur það gerst að frumvarpið til laga kemur á undan ályktuninni og ég minnist þess að í fyrra, á síðasta þingi, var nokkuð áhugaverð tillaga til umfjöllunar í þinginu sem reyndar var rædd áður en hún fór til nefndar og það gerðist þá að frumvarp var til meðhöndlunar í samgöngunefnd á sama tíma. Það merkilega var líka og algjör tilviljun — ég undirstrika það, virðulegi forseti, að það var algjör tilviljun — að nefndarálit og afgreiðslu samgöngunefndar bar upp á sama dag og afgreiðslu utanríkismálanefndar, þ.e. þessi tvö nefndarálit, utanríkismálanefndar og samgöngunefndar, komu til afgreiðslu á sama degi í þinginu og tillögurnar voru ræddar hvor á eftir hinni. Hér fóru fram nokkur orðaskipti einmitt um þetta.

Síðast þegar við tókum nokkrar slíkar ákvarðanir til umfjöllunar í utanríkismálanefnd ræddum við einmitt þetta. Við veltum fyrir okkur hvort ekki ætti að leitast við í Stjórnarráðinu að ákvarðanir EES-nefndarinnar og þær þingsályktunartillögur sem kæmu á vegum utanríkisráðherra inn í þingið og frumvörpin sem viðkomandi fagráðherra flytti, þar sem þetta virðist vera svo oft samtíða, kæmu inn á sama tíma þannig að utanríkismálanefndarmenn gætu jafnframt hlustað á það á sama degi hvaða áhrif þessi gerð hefði til lagasetningar og að það væri einhver samfella í afgreiðslu utanríkismálanefndar á tilskipunum, gerðum eða reglum og þeirri vinnu sem fer fram í annarri nefnd í þinginu á lagasetningu byggðri á þessari sömu reglu.

Það er frekar óþægilegt að nefndarálit utanríkismálanefndar komi inn þegar fagnefndin sem vinnur með frumvarp byggt á reglunni er að ljúka vinnu sinni og setja lög eða gera tillögu um hvernig lögin skuli vera sem byggð er á þessari sömu reglu. Þetta vildi ég gjarnan nefna hér af því að ég held að við eigum saman að leitast við að finna leið til að gera þetta á sem bestan hátt.