131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Breyting á II. viðauka við EES-samninginn.

604. mál
[11:02]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Nokkur orð vegna þeirra mála sem hér eru á dagskrá. Hér eru fimm þingsályktunartillögur úr utanríkisráðuneytinu um innleiðingar gerða frá Evrópusambandinu vegna EES-samningsins og að auki eru á dagskrá þrjú nefndarálit frá hv. utanríkismálanefnd vegna mála er varða Evrópska efnahagssvæðið.

Ég vil gjarnan eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nota þetta tækifæri til að brýna bæði hæstv. forseta og hæstv. utanríkisráðherra til að endurskoða það hvernig við vinnum þessi mál á hinu háa Alþingi. Eins og við vitum öll er oft um að ræða flókin tæknileg atriði og flókna reglugerðarsetningu og nú er það jafnvel þannig að reglugerðir eru teknar beint upp úr reglugerðarskrifum Evrópusambandsins og þýddar frá orði til orðs og verða þannig að reglugerð á Íslandi.

Það er margt í þessum málum, sumt auðvitað mikilvægara en annað, en margt sem varðar bæði víðtæka hagsmuni og annað sem löggjafinn þarf og á að hafa bæði góða yfirsýn yfir og þekkingu á. Við verðum að viðurkenna að það hefur auðvitað oft verið svo að við afgreiðslu þingsályktunartillagnanna hafa hv. þingmenn e.t.v. ekki vitað mjög vel hvað kæmi í framhaldinu, hvernig lagasmíðin eða reglugerðarsmíðin væri í framhaldinu, hvernig í raun og veru þær breytingar sem við tökum inn í gegnum Evrópska efnahagssamninginn innleiðast í íslenska löggjöf.

Nú er EES-samningurinn kominn á tólfta ár, hygg ég, og það er nokkuð sem er orðið brýnt að fara vel yfir í störfum hins háa Alþingis. Ég vil af því tilefni minna á að framkvæmdarvaldið hefur staðið sig vel og í raun alveg tekið yfir stýringuna á því hvernig þessi mál eru afgreidd hér á landi, gaf út handbók árið 2003 um það hvernig standa eigi að innleiðingum og allt er það hið besta mál. Það sem vantar upp á er að löggjafinn mæti framkvæmdarvaldinu við þessa vinnu og geri það þá jafn vel og faglega og framkvæmdarvaldið vissulega gerir. Ég geri engar athugasemdir við það, hins vegar er spurningin hvernig við hv. þingmenn viljum fara í gegnum þessi mikilvægu mál, uppfylla þau og innleiða á þann hátt að sómi sé að og til þess að koma í veg fyrir bæði mistök og misskilning og einhverjar ambögur í reglugerðar- og lagasetningu.

Að síðustu vil ég minna á það, frú forseti, að hv. varaþingkona Samfylkingarinnar, Kristrún Heimisdóttir, flutti í haust þingsályktunartillögu sem liggur fyrir þinginu um endurskoðun þinglegrar meðferðar EES-reglna. Þar er ályktað, með leyfi forseta: „að endurskoða meðferð þingsins á afleiddri löggjöf sem til verður á grundvelli EES-samningsins með það að markmiði að efla þátt Alþingis í mótun löggjafarinnar og mati á því hvernig EES-réttarlegar skyldur verði best uppfylltar að íslenskum rétti. Í þessu skyni skipi Alþingi nefnd fimm þingmanna og komi einn frá hverjum þingflokki.“ Sú nefnd mundi væntanlega skila áliti og tillögum til forsætisnefndar.

Ég beini því eindregið til hæstv. forseta að þetta mál fái afgreiðslu í vetur þannig að við getum staðið saman að því, af því að ég hygg að það sé í sjálfu sér ekki önnur pólitík í því máli en hin þverpólitíska samstaða um að afgreiða þessar reglur almennilega og hafa hina þinglegu meðferð í lagi. Að við tökum okkur til og förum yfir málið og samþykkjum að endurskoða meðferðina á hinu háa Alþingi þannig að við getum staðið betur bæði að afgreiðslu og innleiðingu EES-gerða og einnig í þeirri vissu að við í raun vitum hvað það er sem þeim fylgir.