131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Breyting á II. viðauka við EES-samninginn.

604. mál
[11:13]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er ákveðin tilhneiging til þess að menn falli í ákveðið far við meðferð þessara mála, ég held að ekki sé verið að ljóstra upp neinu leynarmáli þó að maður viðurkenni það. Til að mynda í ríkisstjórninni fá þessi mál, þ.e. tilskipanapakkinn frá Evrópu, allt aðra umfjöllun en önnur þau mál sem fyrir hana eru lögð. Það verður bara að upplýsa það hér, og ég hygg að það sé ekkert leyndarmál, að það eru kannski 10, 20 slíkar tilskipanir afgreiddar í ríkisstjórninni á 5–7 mínútum eða jafnvel skemmri tíma, sem segir okkur að það hefur engin yfirlega farið fram um þau mál þar. Það er vegna þess að sú tilfinning er fyrir hendi að menn standi frammi fyrir gerðum hlut, að það sé í rauninni ekki neitt sem ríkisstjórnin og svo síðar þingmeirihlutinn geti breytt. Það sem ríkisstjórnin og þingið verði aðallega að gæta að sé að menn gangi ekki lengra eða með öðrum hætti fram í tilefni af reglugerðum eða tilskipunum en efni standa til. Að öðru leyti er tilhneigingin sú að menn líti á þetta sem gerðan hlut og að eingöngu sé um formlega afgreiðslu að ræða.

Ég vil þó taka fram vegna orða hv. þingmanns að í utanríkisráðuneytinu fer núna fram krítísk athugun á hverju einasta máli. Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið gert áður en það er a.m.k. gert núna með töluverðum þunga þannig að ég held að það sé vel að því staðið af hálfu ráðuneytisins.