131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:32]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli mínu þegar ég mælti fyrir málum þessum tveimur er það mat okkar sem berum málið fram að hinn endanlegi dómari í málinu meðan stjórnskipunarlög eru ekki tæmandi í þessu efni hljóti að verða þingið sjálft. Ráðuneytið taldi jafnframt að það væri skylda þess að auðvelda þinginu málsmeðferðina með því að vinna fyrir sig fram með þeim hætti að fá vandaða og ítarlega álitsgerð frá virtum lögfræðingi til þess að það viðhorf mætti liggja fyrir þegar málið kæmi til meðferðar þingsins.

Sjónarmið álitsgjafans liggja fyrir en þó er augljóst að hann vekur athygli á því að ekkert er endanlega fullljóst og ákveðið í þessum efnum meðan ekki liggur fyrir afstaða dómstólanna, sérstaklega þegar haft er í huga að Hæstiréttur hefur haft tilhneigingu til þess á síðustu missirum og árum að þrengja þær heimildir sem þingið hefur örugglega talið sig hafa haft þegar sjónarmið af þessu tagi hafa verið uppi. Ég hygg reyndar að þessi aðgerð ráðuneytisins sé í samræmi við það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir var að hvetja okkur til, að undirbúa og skapa skilyrði fyrir vandaðri málsmeðferð fyrir mál af þessu tagi á hv. Alþingi.