131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:35]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta álitaefni er líka enn þá áhugaverðara fyrir þá sök að þó að við vitnum til fjórmenninganefndarinnar sem í voru hinir virtustu lögfræðingur sem töldu EES-samninginn, undirritun hans og ákvörðun um hann ekki stangast á við stjórnskipun landsins voru aðrir lögfræðingar sem tilkallaðir voru, af þáverandi stjórnarandstöðu einkum og sér í lagi, virtir og ágætir, gagnstæðrar skoðunar. Það er reyndar oft eðli lögfræðinnar að menn tefla fram tveimur eða þremur sjónarmiðum.

Ég hef sjálfur lengi verið þeirrar skoðunar að þetta hafi verið takmarkað tilfelli og verið á mörkunum og svo hafi reyndar í þróun málsins komið á daginn að þetta hafi verið jafnvel nær þeim mörkum en ég átti von á á þeim tíma. En a.m.k. hingað til, allt frá 1992, hefur hæstiréttur landsins ekki kveðið upp neinn dóm í neinu máli sem lýtur að því að EES-samningurinn hafi brotið í bága við íslensku stjórnarskrána.