131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[12:22]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er hugsanlegt að ég hafi ekki séð ljósið í myrkviðum ræðunnar sem hérna var flutt. Hafi ég skilið það rétt sem hv. þingmaður var að segja þá var hann að velta því fyrir sér að hugsanlega gæti það gerst að forseti lýðveldisins synjaði lagafrumvarpi sem Alþingi hefur samþykkt staðfestingar. Á tímanum frá samþykkt Alþingis og fram að því að alþingi þjóðarinnar, þ.e. þjóðin sjálf, tekur ákvörðun hefur lagafrumvarpið gildi. Á þeim tíma gætu orðið afleiðingar af samþykkt Alþingis á frumvarpinu.

Þetta er út af fyrir sig fræðilega rétt hjá hv. þingmanni. Hins vegar verða menn að sjálfsögðu að gæta hófs í málum sem þessum. Ef um væri að ræða ákvörðun Alþingis sem síðan hefði með þessum hætti verið synjað af hálfu forseta þá er alveg ljóst að það væri einungis við þær aðstæður að verið hefðu heiftarlegar deilur og mjög sterk rök borin á móti ákvörðun Alþingis.

Ég hlýt að álykta sem svo að framkvæmdarvaldið tæki nægilegt tillit til að sjá til þess að ekki væri ráðist í óhóflega framkvæmd laganna fyrr en þjóðin hefði skorið úr um gildi þeirra. Allt um það.

Við komum til móts við þetta sjónarmið og teljum reyndar að við girðum fyrir þetta með því að setja ákaflega þröngan tímaramma, þ.e. í tveimur tilvikum er talað um þrjár til fimm vikur. Ég tel, hafi ég skilið hv. þingmann rétt, að það sé því skotið byttu undir þann leka.

Að öðru leyti vil ég segja að ég er sammála hv. þingmönnum um að skapa eigi þjóðinni farveg til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. En það kemur ekki í staðinn fyrir þann neyðarhemil sem málskotsrétturinn er, þó að það sé ekki endilega efni frumvarpsins.