131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[12:25]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Viðkomandi frumvarp getur verið þess eðlis að menn séu skyldaðir til að gera eitthvað alla daga sem verður svo ólöglegt ef frumvarpinu verður synjað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna held ég að þetta verði að vera þannig að lögin gildi þann tíma frá því að Alþingi samþykkti þau og þau voru birt og þar til þjóðaratkvæðagreiðslan fellir þau úr gildi. Annars myndast óþolandi réttaróvissa.

Það er annað sem ég vildi koma inn á líka. Nú er það svo að frá og með atburðum sumarsins verða forsetar í framtíðinni væntanlega allir pólitískt kosnir. Þeir munu væntanlega fylgja þessu fordæmi og það gæti komið upp sú staða að forseti framtíðarinnar væri á öndverðum meiði við meiri hluta Alþingis og synjaði lagafrumvörpum staðfestingar í gríð og erg. Jafnvel lagafrumvörpum sem þjóðin hefur ekkert mikinn áhuga á. Ég minni t.d. á frumvarpið um tannsmiði. Forsetinn gæti verið fyrrverandi tannsmiður, sá forseti sem þá verður, og hann synjar því frumvarpi samþykktar og þjóðin hefur engan áhuga á því. Þá má segja að hann sé kominn með heilmikið vald því að hagsmunaaðilarnir munu smala í kosninguna og ná kannski 5% og 7% þjóðarinnar greiða atkvæði. Með þessum hætti gæti lítill meiri hluti hagsmunaaðila náð meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni sem þjóðin hefur lítinn áhuga á. Þá er forsetinn farinn að fá ansi mikið vald.