131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[12:51]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Röksemdir hv. ræðumanns halda ekki því að við vitum alveg hvernig þetta er vaxið með orðalag stjórnarskrárinnar að forseti hafi valdið og láti ráðherra framkvæma það. (Gripið fram í.) Nei, nei, þar kemur að því. Síðan er það útfært í stjórnarskránni og liggur fyrir í formi mjög vandaðra lögskýringa sem ég held að séu hafnar yfir deilur, að í nánar skilgreindum tilvikum felur forseti ráðherrum að framkvæma framkvæmdarvald sitt. Hann er ábyrgðarlaus á þeim tilteknu stjórnarathöfnum en ekki öðrum þar sem hann hefur raunverulega valdið. Það er ákaflega langsótt lögskýring sem hrundi þegar farið var yfir þessa hluti í sumar, að blanda ætti 26. gr. saman við ákvæði af því tagi sem er að finna í 21. gr., að forseti geri samninga við önnur ríki og annað í þeim dúr. Það liggur algjörlega í hlutarins eðli því hverjum á forseti að fela það vald að ákveða hvort hann synji staðfestingar lagafrumvarpi? Það er út í hött, það sér hver maður. Það vald er hjá forsetanum að sjálfsögðu. Menn hættu að ræða það í sumar sem leið og það er búið.

Þegar menn segja að einn maður hafi þetta vald verða menn líka að muna að forsetinn er þó þjóðkjörinn einstaklingur sem þjóðin hefur treyst fyrir valdinu. Þjóðin veit hvernig stjórnarskráin er og hún kýs sér forseta til að starfa samkvæmt henni. Ég held að það sé ekki nokkur ástæða til að hafa áhyggjur af því að við munum nokkurn tíma, að óbreyttri stjórnarskrá, sitja uppi með forseta sem fari að gera sér leik að því að nota málsskotsréttinn úr hófi. Sennilega yrði þjóðin leið á því og ætli þjóðin mundi ekki fljótlega taka í taumana — með atkvæði sínu. Þegar menn segja að 10%, einhver minni hluti gæti endalaust stöðvað (Forseti hringir.) meiri hluta Alþingis af gera menn ráð fyrir að þeir sem væru því andvígir sætu alltaf heima. Hefðu þeir ekki meiri skoðun en svo á málinu?