131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[13:46]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég er einn af flutningsmönnum frumvarpsins sem kveður á um það eftir hvaða reglum framkvæma skuli kosningar þegar upp koma mál sem tengjast því að mál eigi til þjóðarinnar að ganga vegna ákvæða í stjórnarskrá, annars vegar ákvæði 11. gr. og ákvæði 26. gr., sem frægt var sérstaklega á sl. ári og haldið um sérstakt aukaþing á sl. sumri, og hins vegar 79. gr. stjórnarskrárinnar. Verið er að leggja til hvernig fyrirkomulag kosninga um slík mál eigi að vera og finna því farveg í lögunum um kosningar til Alþingis.

Málið er sjálfsagt til komið vegna þess hve harðar deilur urðu um það á sl. ári þegar forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, synjaði lögum staðfestingar og gerði með því gilt ákvæði 26. gr. um að mál skyldi ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu til synjunar eða samþykktar. Í kjölfarið spunnust miklar deilur um hvort við hefðum almennar reglur um hvernig framkvæma ætti þjóðaratkvæðagreiðslur og hversu fljótt þær skyldu fara fram eftir því hvort verið væri að tala um 11. gr., 26. gr. eða 79. gr. Það heyrðust raddir um að setja þyrfti einhver skilyrði um þjóðaratkvæðagreiðslur, jafnvel um að eitthvað lágmark kosningabærra manna tækju þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum o.s.frv.

Þetta er mál sem íslenska þjóðin þekkir vel og sérstaklega þingmenn og þar af leiðandi þarf ég kannski ekki að hafa um þetta langt mál. Ég geri ráð fyrir að fyrri ræðumenn í málinu, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, 1. flutningsmaður málsins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi farið nokkuð vel yfir það efnislega. Ég var því miður fjarverandi úr þessum sal og sat fund með Strandamönnum um vegamál og heyrði þar af leiðandi ekki mál þeirra en ég geng út frá því að þeir hafi farið af miklum vísdómi og skilmerkilega yfir málið þannig að ég þurfi ekki að endurtaka það mjög mikið.

Það er fyllilega réttmætt og eðlilegt í ljósi þess sem gerðist á sl. ári að mál sem hér er lagt fram komi til umræðu í Alþingi og fái eðlilega málsmeðferð. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt. Ég tel einnig algerlega réttlætanlegt það sem sett er í frumvarpið að framkvæma skuli slíkar atkvæðagreiðslur svo fljótt sem verða má og því eru sett ákveðin tímamörk. Jafnframt er þess getið að ef fara skuli fram önnur atkvæðagreiðsla með þjóðinni, t.d. alþingiskosningar eða sveitarstjórnarkosningar, nálægt tímamörkunum sé hægt að lengja þann tíma sem má líða þar til mál yrðu tekin til atkvæðagreiðslu og framkvæma mætti atkvæðagreiðsluna samhliða öðrum kosningum til hægðarauka og sparnaðar í fjárhagslegum útlátum. Ég held að mjög eðlilegt sé að hafa slíkt ákvæði inni. Það er óþarfi að framkvæma kosningar með örfárra vikna millibili ef svo skyldi standa á.

Hægt er að velta sér lengi upp úr deilumálum sl. sumars og því sem þar kom fram og kom upp. Auðvitað vorum við ekki sérlega sáttir við það í stjórnarandstöðunni eftir að forseti hafði synjað lögunum staðfestingar að þjóðin skyldi ekki fá að segja meiningu sína á málinu með atkvæðagreiðslu. Svo var ekki og niðurstaðan varð sú að ríkisstjórnarflokkarnir og þingmenn þeirra í hv. Alþingi drógu málið í heild sinni til baka. Síðan var stofnað til sérstaks nefndarstarfs um að endurskoða stjórnarskrána, fara yfir mjög margt í efni stjórnarskrárinnar og þó ákveðinn leiðarvísir hafi verið gefinn í bréfi forsætisráðherra hefur það komið fram í störfum nefndarinnar að að sjálfsögðu verði ekki haldið sig við þá stífu túlkun að fara bara yfir I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar, enda er fjöldamargt í stjórnarskránni sem þarf athugunar við og við sem störfum á hv. Alþingi þurfum að ná sem mestri sátt um að lenda því máli.

Það hefur oft verið deilt og ekki bara á sl. sumri um hvernig fyrirkomulag eigi að vera á því að þjóðin fái aðkomu að málum. Flutt hafa verið um það frumvörp í hv. Alþingi löngu áður en deilan kom upp sl. sumar að tryggja þyrfti í stjórnarskránni ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna ætti kröfu á því að mál gengi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Í nefnd sem Gunnar Thoroddsen veitti forstöðu á sínum tíma var m.a. vikið að því og eins í því frumvarpi sem lagt var fram af fyrrverandi hv. þm. Gunnari Thoroddsen hvernig fara skyldi með mál til að veita þjóðinni þann rétt að geta krafist þess að umdeild mál færu til þjóðaratkvæðis. Oftast nær hafa menn nefnt á bilinu 20–25% kosningarbærra manna. Ég hallast að þeirri niðurstöðu að til viðbótar við það sem nú er í stjórnarskránni um að mál geti gengið til þjóðaratkvæðis þurfi til að koma sá réttur að kosningarbærir menn geti, hafi þeir til þess vilja og getu að safna saman ákveðnum fjölda kosningarbærra manna, átt rétt á að krefjast þess að mál gangi til þjóðaratkvæðis. Í því sambandi vil ég láta þá skoðun mína koma fram að ég tel að 20% kosningarbærra manna sé nægilega há tala til að menn geti átt rétt á því að mál gangi til þjóðaratkvæðis.

Frumvarpið sem við ræðum snýr ekki að því heldur eingöngu að framkvæmd kosninga, framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt stjórnarskrá eins og hún er nú en þar sem við ræðum þessa hlið mála og þar sem allt málið er undir í stjórnarskrárnefnd tel ég sjálfsagt að láta það koma fram að til viðbótar við þau ákvæði sem nú þegar eru í stjórnarskrá hefði ég talið að þjóðin ætti líka að eiga rétt á að geta krafist atkvæðagreiðslu um einstök afmörkuð mál.

Vissulega þarf að hafa fyrir því að fá 20% kosningarbærra manna til að skrifa undir undirskriftalista um að mál gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki hrist fram úr erminni og ég hygg að menn mundu ekki leggja oft á sig þá vinnu sem því fylgir nema um væri að ræða sérstaklega heit deilumál sem skiptu þjóðina geysimiklu máli. Þetta vildi ég sagt hafa svo ég hafi upplýst hvaða skoðun ég hef á því að marka þurfi í stjórnarskránni rétt kosningarbærra manna til að fá að taka afstöðu til mála í þjóðaratkvæði sem bæri að með öðrum hætti en nú er í stjórnarskránni.

Ég vil líka vekja athygli á því, af því að við ræðum breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, að ég hefði talið eðlilegt að skoða gaumgæfilega nokkur atriði er varða framkvæmd alþingiskosninga, einkum er varðar meðferð utankjörfundaratkvæða og eftirfylgni með því að þau skili sér, því að það er réttur kjósenda samkvæmt venjum og hefðum að ævinlega skuli reyna að sjá til þess að vilji kjósandans komi í ljós og þegar verið er að úrskurða vafaatkvæði t.d. ræður það að ef hægt er að úrskurða um hvað kjósandinn vildi skuli atkvæði að jafnaði teljast gilt. Hins vegar hefur það í framkvæmd reynst vera svo varðandi utankjörfundaratkvæðin að viljinn, þó algerlega skýr sé af hálfu kjósandans, hefur ekki endilega fengið að ráða för. Menn hafa borið fyrir sig framkvæmd umboðsmanna sýslumanns eða sýslumanna ef það hefur vantað stimpil á viðkomandi umslag eða undirskrift embættismanns og þó að allt væri klárt með kjörseðilinn og upplýsingar um kjósendur teldist slíkt atkvæði ekki endilega gilt. Við sáum það við framkvæmd síðustu alþingiskosninga að ákaflega mikill munur var á úrskurði fjölda vafaatkvæða eftir kjördæmum. Ef ég man rétt voru langflest vafaatkvæði úrskurðuð ógild í Reykv. n., miklu fleiri en í Reykv. s. eða Suðvest. sem er fjölmennasta kjördæmið og skar Reykv. n. sig algerlega úr að þessu leyti.

Ég ætla heldur ekki að láta hjá líða að láta þá skoðun mína í ljós að við í Frjálslynda flokknum vorum afar óánægð með að fá ekki endurtalningu á atkvæðum við síðustu alþingiskosningar, einkum utankjörfundaratkvæðum og vafaatkvæðum, og teljum að farið hafi verið á svig við það sem okkur fannst eðlilegt í þeirri framkvæmd. Má til sanns vegar færa og nefna dæmi um að í Danmörku t.d. skirrast menn ekki við að endurtelja þegar munar mun meiru en munaði í alþingiskosningunum síðast á milli manna og flokka.

Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess að ég held að það sé aldrei nógsamlega ítrekað að við gætum að því meginákvæði að vilji kjósenda hvort sem er í kosningum um þau þrjú atriði sem við nefnum í frumvarpinu, 11. gr., 26. og 79. gr., eða almennt í kosningum þá þurfi að véla um það með sambærilegum hætti hver réttur manna er varðandi atkvæði sitt.

Ég ætla að lokum að lýsa því yfir, hæstv. forseti, að ég tel að núverandi framkvæmd á því að koma utankjörfundaratkvæðum til skila sé algerlega aftan úr grárri forneskju, að sá sem greiðir atkvæði hjá umboðsmanni sýslumanns eða sýslumanni þurfi sjálfur að koma atkvæði sínu á flutningabíl, mjólkurbíl, flugvél eða hvaða farartæki sem er svo það komist til skila. Ég tel það vera algerlega úrelt fyrirkomulag og hlýtur að vera eðlilegt að gera kröfu til þess í breyttum kosningalögum að sýslumannsembættið taki utankjörfundaratkvæðið og annaðhvort komi því til skila eða það sé hreinlega talið hjá embættinu og niðurstaðan send þangað sem talið er úr viðkomandi kjördæmi. Engin ástæða er til að viðhalda þessari gömlu hefð í nútímatækniþjóðfélagi með þeim upplýsingahraðbrautum sem við höfum aðgang að og minni ég á að þremur dögum eftir alþingiskosningarnar síðustu fundust þrjú atkvæði í skúffu úti á flugvelli sem áttu að komast til skila á skrifstofu Frjálslynda flokksins.

Ég tel rétt að vekja athygli á þessu þar sem við erum að opna með frumvarpinu kosningalögin og minni á að við erum að endurskoða stjórnarskrána og þar er ýmislegt að skoða þrátt fyrir upptalninguna í skipunarbréfinu sem birtist á sínum tíma.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu og vona að það færi okkur fram á veginn í átt að auknu lýðræði í landinu.