131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[14:03]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í i-lið 1. gr. frumvarpsins segir: „Hafi þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar og meiri hluti atkvæðisbærra manna synjar lagafrumvarpi gildi fellur lagafrumvarpið úr gildi frá samþykkt þess á þingi og réttaráhrif þess skulu gerð að engu“.

Lagafrumvarpið tekur sem sagt gildi þegar forseti hefur synjað staðfestingar og síðan fellur það úr gildi frá upphafi. Spurning mín til hv. þingmanns er: Ég nefndi í andsvari fyrr í umræðunni að ef menn víxluðu á rauðu og grænu í umferðarlögunum, þ.e. bannað yrði að keyra yfir á grænu og leyft á rauðu að viðlagðri refsingu, hvernig kæmi það út ef það gilti frá og með synjun forseta á undirskrift og síðan gilti það öfugt fyrir sama tíma ef þjóðin felldi slíkt frumvarp úr gildi?

Annað dæmi sem hægt er að nefna, og ég vil taka fram að ég er ekki að leggja það til sem ég er að tala um: Ef eiturlyf yrðu lögleidd í landinu og læknum gert skylt að afhenda fíklum eiturlyf að kostnaðarlausu á kostnað ríkisins að viðlagðri refsingu og síðan neitaði forseti slíku frumvarpi undirskriftar og það yrði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu stuttu seinna, þá væru læknar orðnir eiturlyfjasalar og miðlarar sem er refsivert samkvæmt lögunum sem voru í gildi áður og ættu að gilda allan tímann. Hvernig mundi hv. þingmaður að leysa þetta? — Ég vil taka fram að ég er ekki að taka afstöðu til þess hvort eiturlyf skuli leyfð eða bönnuð.