131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[14:18]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað snýst frumvarpið um stjórnarskrána vegna þess að menn leggja frumvarpið fram með fullvissu sína um að 26. gr. stjórnarskrárinnar sé gildandi. En það eru bara ekki allir á þeirri skoðun og hv. þingmenn verða því miður að viðurkenna skoðanir annarra á því ákvæði. Fyrir liggja þrjú mismunandi lögfræðiálit um þetta og ég get tekið undir hvert þeirra um sig. Eitt segir að þetta sé gilt og annað segir að það sé ekki gilt og ég man ekki eftir því þriðja hvernig það var, hvort það væri hálfgildings gilt.

En það var mjög gott sem hv. þingmaður nefndi varðandi 24. gr. stjórnarskrárinnar, að hefðir og reglur hefðu skipað ákveðna forsögu. Það er mjög gott. Vegna þess að hefðir og reglur hafa sagt okkur að 26. gr. sé ekki gild. Hún hefur aldrei nokkurn tíma verið notuð fyrr en síðasta sumar, aldrei nokkurn tíma og hefur þó oft verið ærið tilefni til varðandi lagasetningu á verkföll og verkbönn, lagasetningu á verkfallsrétt verkalýðsfélaga og lagasetningu sem menn telja að brjóti stjórnarskrá og annað slíkt, mannréttindi og ég veit ekki hvað, þannig að öll þau 60 ár sem stjórnarskráin hefur verið í gildi og þetta ákvæði var óhreyft þá tel ég að hefðir og reglur hafi sagt okkur að þetta ákvæði væri ekki gilt.