131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Kosningar til Alþingis.

70. mál
[14:22]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sagt er að göfugt sé og rétt að leita sannleikans en hættulegt að hafa fundið hann. Hv. þingmaður sagði: Samkvæmt gildandi ákvæðum og skýrum ákvæðum stjórnarskrárinnar, samkvæmt gildandi ákvæðum stjórnarskrárinnar og skýrum ákvæðum hennar, þetta er túlkun hans, þetta er skoðun hans. Hann er búinn að finna sannleikann. Ég er ekki viss um þetta og ég hugsa að mjög margir séu ekki vissir um þetta. Það hefur ekkert reynt á það. Hæstiréttur hefur ekki dæmt í þessu máli sem stjórnlagadómstóll.

Það eru fjöldamörg ákvæði í stjórnarskránni sem eru tóm. Það sem gerir þau tóm er ákvæði 13. gr., með leyfi frú forseta:

„Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“ Og síðan 14. gr.: „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.“ Svo þurfa menn að túlka hvað er stjórnarframkvæmd og hvað er vald forsetans. Er þetta vald hans að gera þetta, er þetta ekki vald hans o.s.frv.? Svona ákvæði sem taka úr gildi fullt af öðrum ákvæðum eins og t.d. það að forseti geri samninga við önnur ríki, allir Íslendingar mundu lesa það þannig að hann geri samninga við önnur ríki en það er ekki svo. Allir Íslendingar mundu lesa eftirfarandi líka: Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, eins og stendur í 24. gr. stjórnarskrárinnar. Þeir mundu skilja það þannig að hann gæti rofið Alþingi. Síðan kemur hv. þingmaður og segir að það sé ekki svo. Getur ekki verið að það gildi líka um 26. gr.? (SJS: Einhver þarf að ... inn á þing.) Það gæti verið forseti Alþingis þess vegna.