131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[14:24]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum og er það flutt af hálfu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Auk mín eru flm. hv. þm. Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman.

Auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar hér á landi sem kunnugt er og hefur verið svo um langa hríð. Það hefur þó aukist að framleiðendur og dreifingaraðilar áfengra drykkja reyni að koma þeim á framfæri í auglýsingum með því að nota líkar umbúðir og nöfn á óáfenga drykki sem þeir svo auglýsa. Í gögnum frá lögreglu hefur komið fram að reynslan sýni að mál vegna áfengisauglýsinga hafi reynst ákæruvaldi nokkuð erfið. Talsvert hafi verið um að áfengisauglýsingamálum sem vísað hafi verið til dóms með ákæru hafi lokið með sýknu. Ástæður þessa eru taldar vera margar en eitt af því sem nefnt hefur verið eru óljós lög eða göt í lögunum.

Markmið okkar með frumvarpinu er að reyna að loka því gati sem virðist vera á löggjöfinni þannig að framleiðendur og dreifingaraðilar geti ekki farið í kringum bannið eins og að framan er lýst.

Sú breytingartillaga sem við gerum er á 20. gr. áfengislaganna en í þeirri grein er kveðið á um bann við áfengisauglýsingum. Í 1. mgr. 20. gr. segir á þá leið að hvers kyns auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum séu bannaðar. Í 2. mgr. er nánar kveðið á um þetta og skilgreint hvað átt er við með auglýsingum en hér segir, með leyfi forseta:

„Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.“

Í 3. mgr. er komið að þeim hluta laganna sem við viljum gera viðbót við en þar segir, með leyfi forseta:

„Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“ — Hér kemur sú viðbót sem við leggjum til, með leyfi forseta: „eða hætta á ruglingi á milli áfengu framleiðslunnar og þeirrar sem verið er að auglýsa vegna nafns á vörunni, umbúða eða annarra einkenna.“

Í greinargerð með frumvarpinu er birt skýrsla sem kom út á árinu 2001 en hún var unnin á vegum ríkislögreglustjóra og fjallaði um áfengisauglýsingar. Þar kemur m.a. fram að í Noregi taki bann við áfengisauglýsingum einnig til auglýsinga á vörum með sömu merkjum eða einkennum. Í niðurstöðu nefndarinnar er að finna tillögu um að sú leið verði einnig farin hér á landi og vilji flutningsmanna er að svo verði gert, og að löggjöfin verði hert eins og segir í skýrslunni. Ég leyfi mér að vitna í skýrslu þá sem unnin var á vegum ríkislögreglustjóra á árinu 2001, með leyfi forseta:

„Það sem vekur sérstaka athygli við norsku löggjöfina er áherslan sem lögð er á að menn geti ekki komist fram hjá banninu með því að auglýsa vöru sem heimilt er að auglýsa, en með svo sterkri tilvísan til vöru sem ekki er heimilt að auglýsa að í raun er verið að auglýsa þá vöru. Með því að auglýsa tiltekna vöru sé í raun verið að auglýsa aðra vöru. Þá virðist löggjöfin skýr og nútímaleg.“

Þetta er mergurinn málsins. Við förum þá leið sem Norðmenn hafa farið í þessum efnum. Við viljum með því koma í veg fyrir að óprúttnir menn, framleiðendur og dreifingaraðilar áfengra drykkja, noti sér göt í löggjöfinni. Ég hef stundum undrast hve óábyrgir þeir aðilar eru, að reyna að fara, í gegnum og á bak við auglýsingar, gegn augljósum vilja löggjafans í stað þess að koma hreint til dyranna og berjast fyrir breytingu á lögunum. Ég mundi virða það sjónarmið fullkomlega. Ég er andvígur því sjálfur en það væru heiðarleg vinnubrögð. Þetta eru lúalegar aðfarir, að reyna að pranga vöru inn á fólk þvert á vilja löggjafans og bókstaf laganna. Í raun er augljóst hvað lögin segja í þessum efnum en hins vegar hefur reynslan sýnt að menn komast á bak við lögin með því að nýta sér þessi göt. Ég hef oft undrast hve óábyrgir menn hafa verið í þeim efnum. Aðilar innan þingsins hafa jafnvel verið að mæra þá aðila fyrir að brjóta landslög, þau lög sem eru sett á þinginu. En ég endurtek að ég virði fullkomlega sjónarmið þeirra sem vilja hafa allt opið og þess vegna setja brennivín í allar mjólkurbúðir landsins. Það er sjónarmið. Ég er mjög andvígur því sjónarmiði og hef verið fylgjandi því fyrirkomulagi sem við búum við. Með því móti er stuðlað að því að markaðslögmálin leiki okkur ekki grátt í þessu efni. Ber það vott um vantrú á markaðinn eða markaðslögmál? Síður en svo. Það mætti meira að segja færa rök að því að ég hefði mikla trú á markaðnum, að hann yrði duglegri við að koma brennivíni ofan í þjóðina. Það er hægt að færa rök fyrir því.

Ástæðan fyrir því að menn hafa þennan hátt á dreifingu áfengis og banni við áfengisauglýsingum er sú að löggjafinn hefur viljað draga úr áfengisneyslu í þjóðfélaginu. Það er staðreynd. Hitt er síðan annað mál, ég er fylgjandi því og hef flutt um það þingmál, að ég vil að aðgengi að áfengi og þjónusta við þá sem neyta áfengis sé góð. Ég vil hins vegar að þetta sé á hófsömum nótum og reynt að halda auglýsingaskruminu frá okkur eftir því sem kostur er. Þetta er vandrötuð leið og hægt að deila um það hvernig línurnar og vegurinn eigi að liggja en þetta eru þau markmið sem löggjafinn hefur leitað eftir hér á landi.

Hæstv. forseti. Ég held að það þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, vilji okkar flutningsmanna liggi nokkuð ljós fyrir. Ég vona að málið fái hraða og góða málefnalega umfjöllun í allsherjarnefnd Alþingis og legg til að því verði vísað þangað að lokinni þessari umræðu.