131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[14:35]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta sé hárrétt ábending hjá hv. þingmanni. Lögin ná ekki tilgangi sínum að öllu leyti, einmitt vegna þeirra atriða sem hv. þingmaður bendir á. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því. Hins vegar er tekist á um það í heiminum öllum inn í hvaða farveg við eigum að stefna þessum málum. Það á við um áfengi og tóbak og það eru átök um það, bæði varðandi auglýsingar og t.d. hvar eigi að leyfa reykingar. Sitt sýnist hverjum í þessu efni.

Ég held að framtíðin verði sú að meira verði reynt að draga úr auglýsingamætti í sambandi við áfengisneyslu eða áfengis- og tóbakssölu en nú er gert. Við eigum að leggja okkar af mörkum í þeim efnum þótt hitt sé alveg rétt hjá hv. þingmanni, að með innflutningi tímarita o.s.frv. verði þetta bann ekki einhlítt. Ég er hins vegar á því að við eigum að leggja okkar af mörkum í þessu efni.