131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[14:39]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eflaust má færa rök fyrir því að þetta mismuni auglýsendum að þessu leyti eins og hv. þm. Sigurður Kári nefnir. Hins vegar særir það ekki réttlætiskennd mína. Ég verð að viðurkenna það. Ég held að við eigum að forðast að sjá heiminn um of í svart/hvítu og hugsa í svart/hvítu. Það er ráð að reyna að rýma fyrir heilbrigðri skynsemi eftir því sem kostur er.

Nú er það svo með áfengi að ég er t.d. fylgjandi því að leyfð sé sala á áfengum drykkjum. Ég vil, eins og ég gat um áðan, að aðgengi og þjónusta í þeim efnum sé góð. Hins vegar er ekki þar með sagt að ég vilji opna fyrir grófustu auglýsingamennsku við að koma þeirri vöru á framfæri. Þar legg ég til hófsemi, að farið sé bil beggja og við höldum markaðskröftunum í skefjum hvað þessa vöru snertir. Mér finnst það vera spurning um heilbrigða skynsemi.