131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[15:01]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Það er athyglisvert, frú forseti, ef það er svo sem hv. þm. Mörður Árnason upplýsir, að hér séu áfengisauglýsingar hamslausari og meiri en gerist og þekkist í löndum í kringum okkur. Það má þá mikið vera, kannski er hluti af því máli að það má auglýsa áfengi sem er upp að 2,5% eins og pilsnerinn t.d. sem hefur nafngift þá sömu og sterkur bjór og er þá farið á bak við auglýsingarnar hvað það áhrærir.

Ekki má gleyma hinni stórkostlegu þróun, upplýsingatækni á internetinu, þar sem fólk getur farið út um allan heim og sótt sér þær upplýsingar sem það kærir sig um.

Ég held, virðulegi forseti, að það að kalla hæstv. dómsmálaráðherra einhvern sérstakan útsendara framleiðenda áfengis eða bjórs sé alveg út í hött og vísa ég því til föðurhúsanna. Það sem við hins vegar stöndum frammi fyrir er auðvitað nútíminn. Við stöndum frammi fyrir því að af einhverri hræsni er alltaf verið að búa til lög þar sem bannað er að hafa tóbak sýnilegt í stórmörkuðum en síðan þegar komið er að kassanum til að greiða hafa menn stillt þar upp sælgætisbunkum í miklu úrvali til að draga börnin að. Er kvartað mikið yfir að offita unglinga sé að sliga heilbrigðiskerfið okkar. Það er margt sem má auðvitað betur fara en að gera það að miklu máli hvernig ástand auglýsinga er orðið á Íslandi varðandi áfengismál er mjög sérstakt, og það á sama tíma og menn jafnvel láta að því liggja að þeir séu tilbúnir — einn hv. flutningsmaður þessa máls segir að hann sé á því að það sé eðlilegt að bjór og léttvín sé selt í matvöruverslunum.