131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[15:06]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög áhugavert að hlusta á þá umræðu sem hér hefur farið fram. Sjálf aðhyllist ég hófsemd í þeim málum sem hér hefur verið drepið á sem hafa verið fleiri en eingöngu það sem snýr að breytingu á áfengislögum varðandi auglýsingar. Ég er sammála síðasta ræðumanni, ef lög eru sett eiga þau að gilda og ég er sammála því að reglur eiga að vera skýrar. Þetta er einfalt, mér finnst að þannig eigi það að vera og ég styð það frumvarp sem hér er flutt.

Reyndar finnst mér það form sem viðgengst á Íslandi varðandi áfengismál vera eitthvað sem ég get alveg fellt mig við. Ég er algjörlega ósammála því sjónarmiði að það að gera miklar breytingar á áfengismálunum feli í sér að vera nútímalegur. Ég sé ekkert nútímalegt við það að slá slöku við í að vinna með áfengismálin. Áfengi er öðruvísi neysluvara. Ég hef hlustað á nokkra þingmenn segja um auglýsingarnar að þessi vara sé lögleg neysluvara og þess vegna eigi að leyfa að auglýsa hana og að það sé fráleitt að vera með auglýsingabann af því að það sé hægt að fara inn á netið og af því að hægt sé að kaupa hér erlend tímarit eða að aðrar reglur gildi í öðrum löndum. Mér finnst sjálfsagt að ólíkar reglur gildi í löndum og að hvert land marki sér t.d. stefnu í áfengismálum. Mér finnst ekki sjálfsagt að allt sem hægt er að komast í á netinu sé löglegt á Íslandi, engan veginn, og mér finnst grundvallarmunur á almennri neysluvöru og á vöru sem er vímugjafi og felur í sér ánetjun með tilheyrandi afleiðingum. Þetta á við um áfengi og tóbak. Það hefur í för með sér ánetjun. Neysla á hvoru tveggja er í reynd gífurlega dýrt fyrir samfélagið, og samfélagið og heilbrigðiskerfið takast á við afleiðingar þessa hvern einasta dag og með miklum tilkostnaði árið um kring. Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að stjórnvöld í hverju landi hafi skoðun á því með hvaða hætti þau fjalla um þessi mál og í hvaða samhengi lög eru sett varðandi neyslu á þeim.

Ég ætla að leyfa mér aðeins að nefna það, af því að bæði ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vorum á síðasta þingi Norðurlandaráðs, að þar var m.a. fjallað um áfengisstefnu. Þar var fjallað um skattstefnu Evrópusambandsins varðandi áfengi. Þar kom fram að ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa tekið upp samstarf til þess að leggja áherslu á vilja sinn til að afstýra áfengisvanda og því að bregðast við lágri skattlagningu og skattlagningarstefnu Evrópusambandsins á áfengi. Það skipti engu máli frá hvaða flokki viðkomandi forsætisráðherra var, þeir voru sammála um að bregðast við. Það var frekar áhugavert að við sáum þessi mál í gjörólíku ljósi, ég og hv. þm. Sigurður Kári. Meðan ég var feikilega ánægð með þessi viðbrögð forráðamanna ríkisstjórna Norðurlandanna átti það ekki við um kollega minn í þinginu. (Gripið fram í.) Honum fannst þetta allt annarrar tegundar. Þetta er bara eins og lífið allt. Þetta er eins og er í þessum sal þar sem við erum oftast að ræða mál út frá flokkslegum grunni og sjáum hlutina gífurlega ólíkt eftir því hvaða hugmyndafræði við aðhyllumst í flokkunum. Ég undirstrika það að þessi mál, áfengismálin, eru ekki flokkspólitísk og þess vegna er að finna almennt ólíka skoðun fólks á því hvernig þessi löggjöf eigi að vera og hvaða reglur eigi að gilda um þetta, óháð því í hvaða flokki það er.

Mér fannst mjög merkilegt á Norðurlandaþinginu að heyra forsætisráðherra Norðurlandanna tala opinskátt um það á svo fjölmennu þingi að þeir mundu leggja alla áherslu á að afstýra því að áfengisvandi Suður-Evrópulanda næði til Norðurlandanna. Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að endurtaka þetta: Þeir ætluðu sameiginlega að leggja áherslu á að afstýra því að áfengisvandi Suður-Evrópulanda næði til Norðurlandanna. Af hverju legg ég áherslu á þetta, virðulegi forseti? Vegna þess að undanfarin ár hefur á Íslandi verið lagt ofurkapp á þann málflutning að það sé betri neysla á áfengi í suðlægari löndum Evrópu en í Norður-Evrópu eða á Norðurlöndunum af því að þar sé svo vel farið með vín, þar séu notuð léttvín, það sé betra og faglegra. Svo segja forsætisráðherrar Norðurlandanna að þeir ætli að afstýra því að áfengisvandi Suður-Evrópulanda nái til Norðurlandanna og vísa í umfangsmiklar skýrslur máli sínu til stuðnings. Sjálf get ég alveg upplýst að mér fellur það ekki að 15 ára unglingur á Ítalíu geti sest inn á veitingastað og keypt sér áfengan bjór. Þannig er það í sumum löndum Suður-Evrópu og menn geta haft aðra skoðun á því. Mér finnst þetta ekki gott mál og vil ekki sjá það gerast hér.

Á Íslandi höfum við fjallað um ýmsar tillögur á Alþingi, m.a. um að lækka áfengiskaupaaldur og að leyfa sölu áfengra drykkja í matvörubúðum og vísum alltaf til einhvers konar samræmingar. Það er ekki endilega samræmdur aldur á sumum Norðurlandanna varðandi það að kaupa áfengi í verslunum og kaupa áfengi á veitingastöðum. Okkur mundi finnast það fráleitt en ég held að í Svíþjóð sé lægri áfengiskaupaaldur á veitingahúsum en í útsöluverslunum hjá þeirra ÁTVR sem heitir auðvitað sænsku nafni. Þingin og ríkisstjórnirnar setja ólíkar reglur til að stemma stigu við því sem þau vita að er gífurlegur vandi í þessum löndum.

Ég hlýt líka að nefna það, virðulegi forseti, varðandi umræðuna sem ég er að vísa til og fór fram í Norðurlandaráði að fyrrverandi forseti Norðurlandaráðs sem talaði á þinginu hefur vísað til fjölmargra umfangsmikilla úttekta sem hafa verið gerðar í öllum löndum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Hann fullyrðir það, maður sem áður en hann fór á þing var forstjóri Áfengisverslunar ríkisins í Svíþjóð og þekkir þessi mál feikilega vel, að í öllum þeim skýrslum sem finnist — og þær eru til í hundruða ef ekki þúsunda tali — komi fram sama niðurstaðan. Öll eftirgjöf og öll breyting til eftirgjafar í áfengismálum og að lina tökin í áfengismálum þar sem einhverjar reglur eru þýðir gífurlega neysluaukningu. Þetta eru ekki mín orð, ég er að vísa í yfirlýsingu og til orða manns sem hefur þekkingu á þessum málum, hefur unnið gífurlega mikið með þeim og þekkir þau. Mér finnst ástæða til að við stöldrum aðeins við. Við erum ekki bara að tala um einhverja löglega vöru sem er neysluvara, ergo: Það má bara auglýsa hana og við eigum að vera eins og allir aðrir, ekki hafa neinar reglur. Nei, við erum líka að tala um mál sem er gífurlega tengt heilbrigðismálum, menningarmálum, uppeldismálum og öllu öðru sem við fáumst við sem foreldrar eða afar og ömmur eða hvað það nú er.

Ég styð því þetta mál, virðulegi forseti. Ég vara við þeirri umræðu sem orðið hefur til um að gera þurfi tilveruna nútímalegri á Íslandi með alls kyns tilhliðrunum í áfengismálum. Þetta er vímugjafi, hann getur verið gleðigjafi en gífurleg sorg hefur oft fylgt því að neyta vímugjafans. Hófsemi getur því verið dyggð í þessum efnum og ég aðhyllist hana, bæði varðandi neysluna og ekki síst varðandi það að gefa allt laust og frjálst og láta eins og „hver maður fyrir sig“. Við erum í samfélagi þar sem ekki er lifað eftir reglunni að „hver maður sjái um sig og taki afleiðingum gjörða sinna.“ Við erum samfélag með öllu sem því fylgir. Við tökum ábyrgð hvert á öðru, við tökum sameiginlegan þátt í að bregðast við sjúkdómum, kosta lækningu sjúkdóma, kosta lækningu á þeim sem lenda í erfiðleikum m.a. út af fíkniefna- og vímuefnamálum og við eigum að horfa á málið þannig. Þetta er alvarlegt mál. Verum bara hófsöm áfram.