131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framtíðaruppbygging bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:36]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 10. þm. Suðurk. hefur beint til mín þremur spurningum varðandi heilbrigðisstofnunina á Suðurnesjum. Þingmaðurinn spyr í fyrsta lagi um viðbótarkostnað vegna vaktþjónustu á skurð- og svæfingarsviði allan sólarhringinn og um afstöðu ráðherra til þess fyrirkomulags eða hvort og hvenær slíkri þjónustu verði komið á.

Svarið við fyrstu spurningunni er einfalt. Sólarhringsþjónusta á skurð- og svæfingarsviði þýddi viðbótarframlög til heilbrigðisstofnunarinnar sem svarar til a.m.k. 40 millj. kr. á ári. Fyrir liggur sérstök framtíðarsýn, eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á, um uppbyggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þar koma fram metnaðarfull áform stjórnenda og starfsmanna og góður vilji okkar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu sem tókum þátt í þessari vinnu til að byggja upp heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Sú framtíðarsýn eða stefnumótun er í samræmi við stefnumörkun ráðuneytisins um heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum og í landinu öllu, enda skrifaði ég undir hana eins og kom fram í framsöguræðu hv. fyrirspyrjanda.

Stefnumörkunin felur m.a. í sér uppbyggingu og endurnýjun á skurðstofum stofnunarinnar sem er að mínu mati forsenda fyrir framtíðarþróun spítalans og mun styrkja hann í sessi sem öflugan spítala. Það er hins vegar rétt að það hefur dregist lengur en ég hefði óskað að fullvinna kostnaðar- og framkvæmdaáætlun sem liggur í tillögunum. Hönnun er nú komin af stað og henni gæti lokið á miðju þessu ári. Það er forgangsverkefni hjá okkur að skapa svigrúm til útboðs og framkvæmda við heilbrigðisstofnunina.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra vildi að sólarhringsþjónusta væri á skurðstofu spítalans á Suðurnesjum. Þegar ég svara þeirri spurningu velti ég fyrir mér hvers konar sólarhringsþjónusta það yrði. Því er auðvitað ekki að leyna að þjónusta sem menn fá á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, öflugasta spítala landsins — ég sé hvorki að Suðurnesjamönnum né öðrum landsmönnum utan höfuðborgarsvæðisins standi hún til boða í öllum atriðum í heimabyggð. Þannig er raunveruleikinn ekki og það er auðvitað staðreynd að Suðurnesin liggja mjög nálægt þessum spítala sem er fullkomnasti hátæknispítali landsins. Hins vegar höfum við sett okkur þessa stefnumörkun og svarið felst í henni, stefnan er að bæta þessa vaktþjónustu frá því sem nú er. Ég vísa til hennar hvað þetta varðar.

Ég tel að endurbætur á spítalanum og endurnýjun á skurðstofunum sé algjör forsenda fyrir því að efla þjónustuna eins og mögulegt væri. Forsendan fyrir því að fá fólk til starfa og til að setjast að í heimabyggð er að hafa góða starfsaðstöðu. Aukin þjónusta snýst um mannafla og fé til starfseminnar en það er rétt að hér komi fram að heildarframlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja voru 680 millj. kr. árið 2001 en tæpar 1.100 millj. á þessu ári. Framlögin hafa aukist verulega umfram verðlagsbreytingar og erum við að tala um 58% aukningu framlaga frá árinu 2001.

Eins og ég hef komið að fyrr í svari mínu er það einlæg von mín að við getum ráðist í endurbætur á húsnæði og búnaði til að treysta gundvöllinn undir þjónustu stofnunarinnar til frambúðar og ráða til hennar það fólk sem til þarf og að það fólk sé þá búandi í heimabyggð.