131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framtíðaruppbygging bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:41]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að vekja máls á málefnum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Sitthvað jákvætt kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra um málefni þeirrar stofnunar svo sem að endurnýjun skuli fara fram á skurðstofu og öðrum búnaði.

Ég skal játa, hæstv. forseti, að ég hef ekki djúpa þekkingu á þessu málefni en hef þó kynnt mér það ferli sem stjórnvöld standa að við að marka Heilbrigðisstofnun Suðurnesja framtíð. Settur var niður vinnuhópur í mars árið 2003, hann skilaði af sér í nóvembermánuði 2004 og síðan var undirrituð viljayfirlýsing af hálfu forsvarsmanna stofnunarinnar og hæstv. ráðherra Jóns Kristjánssonar. Sú viljayfirlýsing er nokkuð afdráttarlaus. Þar er tekið undir þær tillögur sem fram koma í fyrrnefndri skýrslu þar sem m.a. er kveðið á um samfellda vaktþjónustu sem er kjarninn í því sem hv. þm. Jón Gunnarsson er að spyrja um, hvað líði framkvæmd þessa.

Hæstv. ráðherra upplýsir að þetta kosti umtalsverða fjármuni, nefndi 40 millj. kr. í því efni. Ég vil gjarnan minna þingheim á að þegar við erum að tala um heilbrigðisþjónustu fyrir mjög fjölmennt byggðarlag, 17 þús. manns í þessu tilviki, vaxa 40 millj. ríkisstjórn Íslands í augum. Þegar ákveðið er að veita 300 millj. til NATO þarf ekki einu sinni samþykki Alþingis, það gera menn bara með þumalsmelli.