131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framtíðaruppbygging bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:47]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að taka þetta mál upp og ráðherra fyrir ágæt svör eða a.m.k. fyrir að lýsa ágætum vilja.

Fyrsta flokks bráðaþjónusta allan sólarhringinn er grundvallarmál þegar fólk velur sér búsetu. Þegar fólk velur sér búsetu til framtíðar er þetta meðal þeirrar grunnþjónustu sem verður að vera til staðar til að búsetuskilyrðin séu ásættanleg fyrir fjölda fólks. Þar fyrir utan ætti millilandaflugið eitt og sér, fyrir utan að þetta er 17 þús. manna byggðarlag, þó þetta langt frá Reykjavík, að réttlæta fyrsta flokks bráðaþjónustu allan sólarhringinn. Kostnaðurinn er smávægilegur og menn geta tekið ýmsan samanburð í því samhengi. Bruðl ríkisstjórna hægri flokkanna er t.d. með ólíkindum í utanríkisþjónustunni. Þegar maður talar um 40 millj., að 40 millj. standi í veginum fyrir því að fyrsta flokks bráðaþjónusta sé til staðar á sjúkrahúsinu á Suðurnesjum allan sólarhringinn, er það ákaflega undarlegur samanburður miðað við bruðlið og ruglið víða í ríkiskerfinu, að ekki sé talað um utanríkisþjónustuna sem er hneyksli út af fyrir sig.

Bráðaþjónusta er meginforsenda fyrir búsetuskilyrðum í dag og hana á að sjálfsögðu að veita. Án hennar skortir festu og fullnægjandi þjónustu í grunngerð samfélagsins, hún veldur óöryggi og vantrú á getu og gæði heilbrigðisþjónustunnar á svæðinu og það er kominn tími til að því uppnámi linni sem ríkisstjórnir hægri flokkanna hafa árum saman valdið í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Festa og öryggi verða að komast á og fyrsta flokks bráðaþjónusta allan sólarhringinn verður að vera veitt á Suðurnesjunum. Smávægilegur kostnaður sem tíndur var hér til má ekki vera notaður sem fyrirstaða í þeirri uppbyggingu.