131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framtíðaruppbygging bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:51]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þegar hæstv. ríkisstjórn tróð í gegnum þingið skattalækkunarpakka sínum upp á milljarða og tugi milljarða króna í desembermánuði sl. var ekki að heyra á ráðherrum í ríkisstjórn eða stuðningsmönnum stjórnarinnar að það væru nein vandamál því samfara að reka áfram velferðarþjónustuna í landinu. Hér virðast þó standa í mönnum, miðað við núverandi tekjur ríkissjóðs og fyrir kúfinn af þessum skattalækkunum, 40 millj. kr. til að unnt sé að halda uppi og veita fullnægjandi sólarhringsþjónustu, bráðaþjónustu við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, á hátt í 20 þús. manna upptökusvæði og þar sem hátt í 2 millj. farþega fara um helsta millilandaflugvöll þjóðarinnar árlega.

Ef þessi þjónusta er ekki í boði á Suðurnesjum þarf að veita hana einhvers staðar annars staðar. Þörfin gufar ekki upp. Er það hagkvæmt, er það sanngjarnt gagnvart íbúum viðkomandi svæðis, er það praktískt að láta alla íbúana af þessu svæði keyra í staðinn til höfuðborgarinnar?

Varðandi það sem hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði er ég ekki viss um að málið sé svo einfalt að taka bara umferðartímann þegar færðin er með besta móti og segja að þetta sé ekkert vandamál að allir sem þurfi skyndilega á aðstoð að halda komi keyrandi frá Suðurnesjum, Selfossi eða Akranesi eða hvar það nú er. (JBjart: Ég sagði það ekki.) Ja, hvað var þá hv. þingmaður og formaður heilbrigðisnefndar að segja?

Ég held að menn þurfi að skoða hug sinn vel áður en þeir taka ákvarðanir um að þjappa þannig saman allri þessari þjónustu og í raun og veru gelda þær stofnanir sem verið er að reyna að halda úti og að bjóði upp á fullnægjandi þjónustu af þessu tagi í heimabyggð. Ég er ekki sammála því að það sé endilega hagkvæm, praktísk lausn eða að öryggi manna sé betur borgið í þeim efnum. Ég held að menn eigi að fara mjög varlega í að tala um að öryggi sé ekki sinnt með sómasamlegum hætti þó að mönnunarmál séu leyst með ýmsum þeim aðferðum (Forseti hringir.) eins og við þekkjum því að það er náttúrlega langur vegur frá því og að hinu að það sé ekki hægt að gera þetta eins og það hefur verið gert, að ég hélt ágætlega, ef fjármunir væru til staðar.