131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:13]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Um frumvarp þetta ætla ég ekki að hafa mörg orð að sinni. Það á eftir að fara til umfjöllunar í heilbrigðis- og trygginganefnd þingsins og fær vonandi skjóta afgreiðslu þar. Ég tel að hér sé stigið framfaraspor, aukin þjónusta og stuðningur við aldraða sem þurfa þjónustu tannlækna. Hingað til hefur ekki verið heimild fyrir því að niðurgreiða eða styðja aldrað fólk sem þarf á brúarsmíð eða öðru af því tagi að halda. Slík heimild hefur verið fyrir hendi heimild gagnvart unglingum. Hún mun ekki hafa verið nýtt en hún er til staðar í lögunum.

Ég tel með öðrum orðum að hér sé á ferðinni framfaramál, skref fram á við, en vek athygli á frumvarpi til laga sem flutt er af hv. þm. Þuríði Backman ásamt mér. Hún er 1. flutningsmaður þess máls. Á undanförnum árum höfum við á hverju ári haft uppi málflutning í þinginu fyrir því að bæta tannheilsu og auka stuðning hins opinbera við unglinga og fullorðið fólk hvað það snertir. Við höfum flutt um það fjölmörg þingmál og reynt að halda uppi þrýstingi í þá veru.

Í frumvarpi til laga sem hv. þm. Þuríður Backman er 1. flutningsmaður að og ég vék hér að er gert ráð fyrir sömu breytingum og stjórnarfrumvarpið kveður á um. Þó er vilji hér til að ganga umtalsvert lengra en ríkisstjórnin er reiðubúin að gera. Þannig leggjum við til í okkar frumvarpi varðandi greiðslur sjúkratrygginga fyrir almennar tannlækningar barna og ungmenna að aldurstakmarksviðmiðið verði hækkað úr 18 ára, eins og nú er, í 20 ár. Við viljum að tannlæknakostnaður þess hóps verði greiddur að fullu en núna er 75% kostnaðar greiddur af hinu opinbera.

Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar viljum við að 100% verði greitt, að kostnaðurinn verði greiddur að fullu. Það er 75% núna. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta ekki tekjutryggingar viljum við færa mörkin upp í 75%. Þau eru er 50% núna. Gerð er grein fyrir þessum tillögum okkar í ítarlegu máli í greinargerð með frumvarpinu og verður að sjálfsögðu tíundað nánar þegar frumvarpið kemur til afgreiðslu.

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt þegar fram koma frumvörp sem eru sama eðlis, kveða á um breytingar á sömu lögum, fást við sömu viðfangsefni, að þá séu þau rædd samhliða og send til umsagnar samhliða og fái samhliða afgreiðslu.

Ég ítreka það að ég er ekki með þessu að gera lítið úr því sem hér er verið að gera. Mér finnst þetta vera mjög mikilvægt og ég fagna því skrefi sem verið er að stíga fram á við með þessu frumvarpi. En ég vek athygli á frumvarpi okkar hv. þm. Þuríðar Backman sem gerir ráð fyrir enn meiri umbótum en þó er kveðið á um í þessu frumvarpi.