131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:17]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil líka fagna því frumvarpi sem hér er til umræðu. Það kemur fram í frumvarpinu og í greinargerðinni að verið er að leggja til breytingar á 37. gr. laga um almannatryggingar sem kveður á um að sjúkratryggingar greiði ekki fyrir gullfyllingar, krónu eða brýr elli - og örorkulífeyrisþega. Eins og komið hefur fram í umræðunni höfum við sett okkur ákveðin forgangsverkefni í heilbrigðisáætlun sem Alþingi samþykkti árið 2001. Þau markmið sem þar eru sett eru m.a. að lækka á tíðni tannskemmda tólf ára barna og það á líka að vinna að því að meira en helmingur fólks 65 ára og eldra hafi a.m.k. 20 tennur í biti. Það er alveg ljóst að eins og 37. gr. núgildandi almannatryggingalaga er þá samræmist hún ekki þessum markmiðum heilbrigðisáætlunar af því að í dag er einungis heimilt að endurgreiða tannlæknakostnað við laus tanngervi en ekki föst. Þetta mál er því mjög til bóta. Hér fylgir reglugerð með til að sýna fram á hvernig hún muni líta út. Ég tel mjög mikilvægt að við sem munum fjalla um þetta mál í heilbrigðis- og trygginganefnd fáum að sjá þessa reglugerð af því að það skýrir málið mjög vel að hafa reglugerðina með.

Varðandi endurgreiðslurnar þá eru ákveðin skilyrði sett fyrir því að fá endurgreiðslu. Það er alveg ljóst að ekki má oftar en á tíu ára millibili fá endurgreiðslu á sömu tönn eða tannstæði nema sérstakar ástæður liggi til grundvallar. Þá er hægt að skoða undanþágu samkvæmt reglugerðinni. Þessi endurgreiðsla á að miðast að hámarki við 80 þús. kr. á hverju almanaksári. Svo eru hóparnir flokkaðir niður miðað við hvað þeir eiga að fá mikið endurgreitt. Það kemur fram í reglugerðinni að sjúkratryggingar greiða 100% af gjaldskrá vegna elli- og örorkulífeyrisþega sem eru langsjúkir og dveljast á sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum, 75% vegna elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar og 50% vegna elli- og lífeyrisþega sem njóta ekki tekjutryggingar.

Mjög athyglisverðar tölur eru í þingskjalinu. Það kemur fram að rúmlega 40 þúsund einstaklingar eigi rétt á að sækja um greiðsluþátttöku þessarar þjónustu og hvert prósent sem mundi gera það gæti aukið útgjöld ríkissjóðs um 20–24 millj. kr. miðað við hámarksendurgreiðslu þannig að ef 10% einstaklinga leita eftir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga með þessum hætti mundu útgjöld ríkissjóðs nema um 200–240 millj. kr. á ári. Það er svo sem erfitt að meta hve margir leita eftir þjónustunni en það er alveg ljóst, eins og hér kemur fram, að útgjöld ríkissjóðs geta aukist verulega við þessar breytingar.

Í heilbrigðis- og tryggingaþjónustu okkar erum við að auka útgjöld ár frá ári og á yfirstandandi fjárlagaári er verið að auka útgjöldin um í kringum 4%. Það er sem sagt raunaukning. Auðvitað er eðlilegt að gera allt sem hægt er til þess að hemja útgjöldin en veita samt góða þjónustu. Þrátt fyrir að hér sé um útgjaldaaukningu að ræða tel ég þetta mál mjög gott og það fellur að þeim markmiðum sem Alþingi hefur sett sér og heilbrigðisyfirvöld varðandi tannheilsu eldri borgara.

Aldraðir telja stundum að ekki sé nógu vel gert við þá en þetta mál er nú einmitt af þeim toga að ég held að aldraðir hljóti að vera afar ánægðir með það að fá nú möguleika á endurgreiðslum vegna fastra tanngerva sem þeir hafa ekki átt möguleika á að fá greidd fram að þessu nema þeir hafi einhverja meðfædda galla, sérstaka sjúkdóma eða hafi lent í slysum. Það er verið að víkka mjög mikið þennan endurgreiðslumöguleika.

Þar sem ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra tali hér að lokum hef ég áhuga á að heyra aðeins um kostnaðinn við þetta eða útgjöld ríkisins. Hér segir að um 45 millj. kr. séu eftirstandandi vegna gjaldskrár fyrir árið 2005. Eftir hækkun á gjaldskrá vegna tannlækninga fyrir árið 2005 standa líklega 45 millj. kr. eftir. Ég skil það sem svo að þessar milljónir eigi að fara í þennan lið, þessar endurgreiðslur. En ef svo fer, sem er kannski erfitt að giska á núna, að þetta verði hærri upphæð þá gæti það verið til skýringar hér ef hæstv. ráðherrann mundi vilja koma inn á það hvort þá megi búast við því að beðið verði um fjáraukalagaheimild fyrir þeirri upphæð sem þá á vantar, þ.e. ef kostnaðurinn fer fram úr þessu.

Ég vil líka koma því á framfæri að líklega munu færri og færri þurfa á þessari endurgreiðslu að halda í framtíðinni, væntanlega ekki í náinni framtíð en í lengri framtíð þar sem tannheilsa almennings er mjög batnandi. Það er auðvitað vegna allrar þessarar forvarnastarfsemi sem við sjáum í heilbrigðiskerfinu bæði á vegum tannlækna og í skólakerfinu almennt. Fólk er miklu meðvitaðra núna um hvernig eigi að halda tannheilsu bæði barna og fullorðinna.

Ég vil gjarnan inna ráðherrann eftir svörum: Ef kostnaðurinn fer fram úr 45 milljónum, má áætla að það verði sett inn á fjáraukalög? Væntanlega er heilbrigðisráðuneytið að undirbúa núna tölur varðandi það hvað eigi að fara á fjárlög næsta árs í þennan lið, af því að þetta er útgjaldaaukning eins og fram kemur hér.