131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:24]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð annarra hv. þingmanna sem hafa talað í þessu máli og fagna þeim skrefum sem hér er verið að stíga í að auka rétt fólks til greiðslna úr almannatryggingum vegna tannviðgerða eða annarra atriða sem lúta að bættri tannheilsu.

Ég vil í upphafi vísa til þess, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði, til frumvarps til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem liggur fyrir þinginu á þingskjali 235. Þetta er mál nr. 229 og flutningsmenn eru hv. þingmenn Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson og lýtur það að sömu atriðum og hæstv. ráðherra er að flytja hér frumvarp um.

Tannvernd og tannheilsa hafa verið mikið áhugamál og baráttumál þingmanna Vinstri grænna. Nefni ég í því sambandi sérstaklega hv. þm. Þuríði Backman sem flutti á síðasta þingi tillögu til þingsályktunar um tannvernd barna og unglinga sem fól í sér að fela heilbrigðisráðherra að sjá til þess að tannvernd barna og unglinga til 18 ára aldurs verði efld. Þessi tillaga fór til nefndar þó að hún væri ekki afgreidd þaðan og fékk mjög góðar og ákveðnar umsagnir. Því er í sjálfu sér fagnaðarefni að umræða og tillöguflutningur hv. þingmanna Þuríðar Backman og Ögmundar Jónassonar skuli hafa m.a. stuðlað að því að þetta mál er komið á rekspöl og hefði verið æskilegt að ræða frumvarp þeirra til laga sem hér er um getið um leið og þetta frumvarp. Nóg um það. Gott er að málið skuli vera í þessum farvegi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um örfá atriði bara til að hafa þau á hreinu. Hér er eingöngu talað um börn að 18 ára aldri en hin lægri mörk aldurs eru ekki tilgreind. Ég sá það alla vega ekki á þeirri hraðferð sem ég hef farið yfir texta lagafrumvarpsins. Ég sé hvergi hin lægri mörk tilgreind í aldri. Á ég að skilja það svo að það sé niður í núll? Þá hefði mér fundist rétt, herra forseti, að það kæmi hreinlega fram því hér er t.d. sagt að börn skuli hafa eins konar trúnaðartannlækni sem fylgist reglulega með þeim, kallar þau inn og því um líkt. Ég þekki til þess að skipulagt tanneftirlit á börnum hefur verið eftir að þau eru komin upp í svokallaðan grunnskóla, fimm til sex ára og eldri. En yngri börn hafa ekki verið kölluð inn reglulega hvað það varðar. Sé markmiðið að þetta gildi frá fæðingu til 18 ára aldurs þá hefði ég viljað sjá það koma fram í lögunum til að taka af öll tvímæli um að þau tækju til þess.

Í annan stað vil ég líka spyrja um tannréttingarnar. Það er mikilvægt að tennur séu sem réttastar og ýmislegt getur haft áhrif á það, t.d. það sem nefnt er í frumvarpinu, að tryggingar taki til tannréttinga vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Þarna er komið mjög erfitt matsatriði sem lýtur að að alvarlegum afleiðingum meðfæddra galla. Er þá bara verið að tala um hreina afskræmingu og að hinir meðfæddu gallar séu það sem hindri eðlilegt tal eða það að geta borðað eða beitt munninum eðlilega eða nær þetta til nauðsynlegra tannréttinga að mati tannlæknis, þ.e. að þær séu nauðsynlegar bæði vegna þess sem ég nefndi áðan og einnig vegna framtíðartannhirðu, tannverndar og tannstöðu og líka til þess að jafna út lýti sem geta verið bæði líkamlega og sálrænt til baga hjá börnum og unglingum.

Ég vil því inna hæstv. ráðherra eftir nánari skilgreiningu á því hvað átt sé við með alvarlegum afleiðingum meðfæddra galla. Ég hefði viljað sjá þarna standa bara að Tryggingastofnun nái til tannréttinga sem tannlæknar eða aðrir slíkir sérfræðingar eru ásáttir um að telja nauðsynlegar að gerðar séu á börnum. Ég vil þess vegna heyra áréttingu hæstv. ráðherra um að þetta verði ekki skilið eftir eins og hér er raunin.

Ég vildi til viðbótar nefna eitt atriði sem mér hefur verið hugleikið. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra, þótt það komi ekki beint inn á efnisþætti frumvarpsins að öðru leyti en því að það lýtur að almennri tannvernd og tannheilsu, en það er stjórnsýsluleg staða þeirra efna sem notuð eru við tannviðgerðir og tannvernd. Þau efni sem notuð eru við tannviðgerðir, þ.e. sem notuð eru til að grípa inn í heilbrigði og lífeðlisfræðilega þætti mannsins, eru eftir því sem mér hefur skilist flokkuð sem hráiðnaðarvara. Eftirlit með gæðum eða öðru varðandi þau efni lýtur því sérstökum kröfum um eftirlit með iðnaðarvörum en er ekki flokkað með heilbrigðisvörum, lyfjum eða öðru slíku sem lýtur ströngum kröfum um eftirlit, ákveðin gæði o.s.frv. Þarna er bara um hráiðnaðarvöru að ræða og þess vegna allt annað eftirlit með því. Ef svo er finnst mér að það þurfi að skoða vandlega.

Efni sem notuð eru til tannviðgerða eru sett inn í líkamann og geta haft áhrif á vefi og aðra starfsemi líkamans. Þess vegna er mikilvægt að þau lúti skýrum reglum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um hvernig eftirliti með þeim er háttað. Það hefur verið nefnt á þingi og úti í samfélaginu, verið rætt um notkun amalgams sem margar þjóðir leyfa ekki lengur notkun á vegna kvikasilfursmengunar sem af því getur stafað. Ég veit um lönd þar sem það hefur verið tekið af notkunarlista og er ekki leyft lengur. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvaða eftirlit er með notkun efna og hvaða kröfur eru gerðar til tannviðgerðarefna og annars sem lýtur að tannvernd á Íslandi.

Herra forseti. Í frumvarpi til laga sem hv. þingmenn Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson fluttu er lagt til að ganga nokkru lengra í að Tryggingastofnun ríkisins komi til móts við greiðslu kostnaðar barna, ungmenna og einnig líka fyrir elli- og örorkulífeyrisþega. En mér þætti við hæfi varðandi það frumvarp, sem liggur fyrir þinginu en hefur ekki verið mælt fyrir, að mælt yrði fyrir því sem allra fyrst þannig að það geti farið til nefndar og verið meðhöndlað samtímis þessu frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra, sem ég ítreka að er spor í framfaraátt og hægt að fagna því sem slíku.