131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:55]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er afar athyglisvert að heyra málflutning og röksemdir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í velferðarmálum, hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég vil minna á það, herra forseti, að hv. þingmaður er einn af helstu talsmönnum Sjálfstæðisflokksins, er í forsvari fyrir flokkinn og mál hans á Alþingi og í nefndum. Þess vegna hlýtur maður að verða að taka alvarlega þann boðskap sem hann flytur fyrir hönd síns flokks. Þegar hér er lagst gegn eða talað niður til velferðarkerfisins, eins og hv. þingmaður gerði áðan, hlýtur maður að verða að tala það alvarlega.

Íslenska þjóðin hefur verið stolt af þeirri samábyrgð sem hefur verið byggð upp hér á landi, að það sé ákveðin grunnþjónusta, samfélagsþjónusta sem allir eigi aðgang að og allir njóti án tillits til efnahags eða annarra ytri skilyrða. Þetta hefur verið stolt okkar. Nú heyrum við frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hér á þingi, hv. þm. Pétri H. Blöndal, að hann varar okkur við að fylgja þessu eftir.

Ég minnist þess þegar hv. þingmaður talaði um það sem mesta gleðidag í lífi sínu þegar boðaðar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar voru samþykktar hér á Alþingi, ég minnist þess. Þetta er í sjálfu sér í samræmi við þann boðskap. (Forseti hringir.) Engu að síður er það alvarlegt.