131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[17:10]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna, kom fyrst og fremst upp til að víkja fáeinum orðum að hv. þm. Pétri H. Blöndal, talsmanni Sjálfstæðisflokksins í skattamálum og almannatryggingum. Ég veit að þeir eru fleiri um hituna þar en hann hefur látið mjög að sér kveða fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í þeim málum.

Ég ítreka það sem fram kom í máli mínu fyrr í dag að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lítum á stjórnarfrumvarpið sem spor fram á við. Ríkisstjórnin hefur verið að þoka þessum málum áleiðis mjög hægt, kannski nær að tala um að hún drattist áfram, en stórstíg er hún ekki.

Við höfum vakið athygli á frumvörpum þeim sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur flutt og að öllum ólöstuðum hefur hv. þm. Þuríður Backman verið flestum ef ekki öllum þingmönnum iðnari við að halda málaflokknum, tannvernd og tannheilsumálum almennt, að þinginu og þrýsta á um úrbætur. Höfum við vísað í tillögu til þingsályktunar sem flutt var á síðasta þingi um tannvernd barna og unglinga en við tillögunni bárust mjög jákvæðar umsagnir víðs vegar að úr samfélaginu og er vísað til þeirra í frumvarpi til laga sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs báru fram á yfirstandandi þingi.

Að öðru leyti hef ég gert grein fyrir áherslum okkar og sagt að það sem verið er að gera með stjórnarfrumvarpinu er í áttina að þeim tillögum sem við höfum lagt til. Það er ekki gengið næstum því eins langt og við hefðum kosið en að sjálfsögðu fögnum við öllum skrefum fram á við og teljum að þetta sé mjög mikilvægt skref þó að það sé ekki ýkja stórt.

Þá er komið að hv. þm. Pétri H. Blöndal sem flutti mjög andheita ræðu áðan um velferðarþjónustuna, skattheimtu o.s.frv. Ég verð að játa að ég hef alltaf svolítið gaman af því þegar hv. þingmaður opnar sig að þessu leyti og hugleiði þá þá hróplegu mótsögn sem er á milli orða annars vegar og athafna hins vegar, því að þessi hv. þingmaður hefur stutt stórkostlegustu fjárfestingar á vegum opinberra aðila í sögu íslensku þjóðarinnar. Þá er ég að vísa til lántöku við Kárahnjúkavirkjun því að það er fjárfesting sem íslenska ríkið réðst í með samþykki hv. þm. Péturs H. Blöndals og annarra (Gripið fram í.) aðila sem ég gæti vísað til.

Hann kallar fram í að R-listinn hafi samþykkt þetta, það er ekki alls kostar rétt vegna þess að þar voru mismunandi áherslur. (Gripið fram í.) Þáverandi borgarstjóri, hv. varaþingmaður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, samþykkti ráðagjörðina en fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í meirihlutasamstarfinu í Reykjavík voru þessu andvígir. (Gripið fram í: Hann klofnaði.) Þetta hélt ég að hv. þingmaður hefði vitað. Listinn klofnaði í málinu, það er alveg rétt. Það gerist stundum þegar fólk fylgir sannfæringu sinni að það lætur brjóta á málum sem það telur vera nokkurs virði.

Ég hlustaði á mjög athyglisverðan fyrirlestur í Norræna húsinu í gær sem fram fór að tilhlutan Norðurlandaráðs, að því er ég held, a.m.k. var þar byggt á starfi á vegum Norðurlandaráðs. Þar voru flutt erindi sem voru alveg geysilega fróðleg. Þar kom fram m.a. í erindi sem Stefán Ólafsson, prófessor í félagsvísindadeild Háskóla Íslands, flutti að ýmsar veigamiklar stoðir velferðarþjónustunnar á Íslandi hafi verið að veikjast ef við lítum aftur til samanburðar til ársins 1990 eða til byrjunar tíunda áratugarins. Hann fór mjög rækilega yfir hvernig þetta hefði verið að gerast. Hann setti upp á skjá samanburðartölur um skattlagningu víðs vegar í heiminum, á Norðurlöndum og einnig í engilsaxnesku löndunum í Suður-Evrópu. Þar kemur fram að hið margumtalaða skandinavíska módel sem byggir á talsvert mikilli skattheimtu og mikilli samneyslu hafi fætt af sér samfélag þar sem tiltölulega mikill jöfnuður ríkir. Samfélag á borð við hið bandaríska, og einhver önnur voru nefnd í þeirri spyrðu, byggir hins vegar á lítilli skattheimtu en í þeim þjóðfélögum er mikil misskipting auðsins. En það sem mér þótti merkilegt í þeim samanburðarfræðum var að þegar millitekjufólkið í Bandaríkjunum var skoðað og útgjöldin tínd saman eða sett saman í eina spyrðu sem fólk hafði vegna velferðarmála, heilsugæslu, heilbrigðisþjónustu af ýmsu tagi og öðru sem fólk sækir til sem við köllum velferðarþjónustu, skóla, heilbrigðismála, trygginga og þar fram eftir götunum, ef við tökum þessi útgjöld og bætum þeim við skatta, þá kom á daginn að útgjöldin voru ekki ósvipuð á Norðurlöndunum annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar. Það voru svipaðar upphæðir sem menn greiddu en í öðru formi, annars vegar í samneyslufarvegi og hins vegar í einkaneyslu.

Þá er að hyggja að afleiðingunum og þær eru sem ég gat um áðan, samfélag misskiptingar annars vegar, mikillar misskiptingar og ójafnvægis og hins vegar samfélag jafnaðar. Þegar dæmið er gert upp og menn skoða hverjar eru félagslegar og fjárhagslegar afleiðingar misskiptingar, afleiðingar fátæktar því hún er mjög dýr fyrir samfélagið, ekki bara í erfiðu hlutskipti þeirra sem eru fátækir eða búa undir fátæktarmörkum heldur kostar hún líka skattborgarann, hinn rómaða skattborgara hv. þm. Péturs H. Blöndals, umtalsverða fjármuni, þá er þetta dýrt samfélag að reka.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, hæstv. forseti, í tilefni orða hv. þm. Péturs H. Blöndals þar sem hann talaði niður til velferðarkerfisins, til velferðarþjóðfélagsins sem smíðað hefur verið á Íslandi og Norðurlöndum á undanförnum áratugum.